30 ár frá opnun á Akureyri
í tilefni af opnun skrifstofunnar fyrir 30 árum.
-Magnús Oddsson, fyrrverandi ferðamálastjóri, fer yfir aðdraganda opnunar skrifstofu Ferðamálaráðs á Akureyri
Í dag eru 30 ár síðan skrifstofa Ferðamálastofu, sem þá hét raunar Ferðamálaráðs Íslands, var opnuð á Akureyri. Með þessu var með vissum hætti unnið ákveðið brautryðendastarf í fjölgun opinberra starfa utan Höfuðborgarsvæðisins því á þessum tíma þótti slíkt engan veginn sjálfgefið.
Hér á eftir fer Magnús Oddsson, fyrrverandi ferðamálastjóri, yfir aðdraganda málsins og má með sanni segja að margt áhugavert komi fram sem vert er að halda til haga.
Umræða um eflingu landsbyggðarinnar
Að sögn Magnúsar var mikil umræða á níunda áratug síðustu aldar um nauðsyn þess að efla landsbyggðina, sem þá eins og oft í gegnum tíðina, átti í vök að verjast, ekki síst gagnvart Höfuðborgarsvæðinu. „Líklega er stærsta skrefið sem stigið var á þessum tíma í viðleitninni til að efla landsbyggðina stofnun Háskólans á Akureyri 1987. Þegar síðan fyrstu útskriftir voru svo þaðan upp úr 1990 kom eðlilega umræðan um að störf vantaði á landsbyggðinni til að halda í þetta háskólamenntaða fólk á svæðinu,“ segir Magnús.
Orðið fjarvinna ekki orðið til
Í þessari umræðu kom stofnunin Ferðamálaráð til umræðu
Halldór Blöndal þingmaður svæðisins varð samgönguráðherra vorið 1991. Hann brann að sögn Magnúsar mjög fyrir öllu sem gæti verið til eflingar Akureyri og öllu N-Austurkjördæmi. „Mögulegur flutningur opinberra stofnana út á land var talsvert í umræðunni, þó þetta hafi að sjálfsögðu verið löngu áður en orðið fjarvinna varð einu sinni til og langt í þá tækni sem er forsenda þess. Í þessari umræðu kom stofnunin Ferðamálaráð til umræðu enda heyrði stofnunin undir Halldór Blöndal og mörgum þótti þetta borðliggjandi enda að margra mati ekkert sem krafðist þess að þau verkefni sem þar voru unnin þyrfti að vinna í Reykjavík,“ segir Magnús.
Afdrifaríkur kvöldverður á Grænlandi
bað mig að koma í smá göngutúr
Á þessum tíma var Magnús markaðsstjóri Ferðamálaráðs en breytingar voru í vændum því síðla sumars 1993 lá fyrir að Birgir Þorgilsson myndi hætta sem ferðamálastjóri 1. október þá um haustið. Fimm dögum áður en það myndi gerast, eða 25. september 1993, var lokakvöldverður Vest Norden ferðakaupstefnunnar. Kaupstefnan var þá var haldin í gömlu herstöð Bandaríkjamanna í Kangerlussuaq á Grænlandi. „Undir lok kvöldverðarins bað Halldór mig að ganga með sér út og koma í smá göngutúr. Hann spurði mig hvort ég væri ekki til í að vera settur ferðamálastjóri frá 1. október og til áramóta. Ég var þá staðgengill ferðamálastjóra og hafði verið settur ferðamálastjóri fyrr (1990-1991) svo ég svaraði því eðlilega játandi. Hann sagði að síðan yrði starfið einfaldlega auglýst.“
Áhersla áumhverfismál og innlenda kynningu
í löngu samtali okkarmótuðust síðan hugmyndir um tvær skrifstofur
Í þessu samtali segir Magnús að Halldór hafi farið að velta upp þeim möguleika að flytja skrifstofuna norður. „Hann spurði mig beint hvort ég myndi flytjast norður ef svo færi. Ég sagði að það ekki henta mér af fjölskylduástæðum þó alltaf kynni ég vel við mig á Akureyri og gæti vel hugsað mér að búa þar. Í löngu samtali okkar þetta kvöld mótuðust síðan hugmyndir um tvær skrifstofur; að skipta starfseminni upp og auka um leið áhersluna á tvo meginþætti: umhverfismál og innlenda kynningu, sem yrðu fyrir norðan. Auk þess sem upplýsingaþátturinn yrði einnig efldur að hluta á Akureyri.“
Lagður grunnur að „Ísland sækjum það heim“
sé í mínum punktum að hann nefndi töluna 50 milljónir
Meðal þess sem rætt var þeirra á milli þetta kvöld var nauðsyn þess að sýna í verki við flutninginn að alvara væri á bakvið þau orð að efla innlenda kynningu. „Halldór sagði að við skyldum leita eftir samstarfsaðilum til að efna til átaks 1994, sem varð síðan átakið „Ísland sækjum það heim“. Ég sé í mínum punktum sem ég skrifaði síðar um kvöldið að hann nefndi töluna 50 milljónir og hvert skyldi leita að samstarfsaðilum. Sem síðan gekk eftir.
Þetta átak, “ Ísland sækjum það heim”, var síðan mjög sýnilegt á 50 ára afmælisári lýðveldisins. Okkar samtali lauk svo með því að við skyldum næstu vikur fá formlegt samþykki fyrir þessari skipan, sem síðar gekk eftir, og vinna eftir þessari línu að skipta innlendu starfseminni á milli Akureyrar og Reykjavíkur.“
Nokkrar flugur í einu höggi
Magnús bendir á að þarna voru í reynd nokkrar flugur slegnar í einu höggi:
- Flutningur opinberra starfa á landsbyggðina.
- Efling starfsemi stofnunarinnar með stóraukinni áherslu á umhverfismál og innlenda kynningu.
- Undir þessum formerkjum að færa verkefni á landsbyggðina var auðveldara að fá opinbert fjármagn, styrkja starfsemi stofnunarinnar og fjölga stöðugildum.
- Við úrvinnsluna bættust síðan fljótlega við verkefnin á Akureyri, kannanir og rannsóknir.
Opnað fyrir norðan
8. apríl var síðan haldinn fundur ferðamálaráðs
Í janúar 1994 stuttu eftir að Magnús var skipaður í starf ferðamálastjóra fóru þeir Birgir Þorgilsson, sem þá var orðinn formaður ferðamálaráðs, norður til að skoða húsnæði og fleira. Helga Haraldsdóttir hafði þá verið ráðin til að veita skrifstofunni forstöðu. Í framhaldinu var unnið að frekari mótun verkefna skrifstofunnar, leigt húsnæði við Strandgötu 29 og ráðnir tveir starfsmenn auk Helgu; Þórgunnur Stefánsdóttir og Sigurður Jónsson. Föstudaginn 8. apríl var síðan haldinn fundur ferðamálaráðs á skrifstofunni að morgni, skrifstofan síðan opnuð og haldinn blaðamannafundur síðdegis.
Farsæl niðurstaða
erfitt að flytja stofnunina í heild
Magnús segist telja reynsluna hafa sýnt að þetta hafi verið farsæl niðurstaða fyrir málaflokkinn og starfsemi stofnunarinnar í heild. „Eftir að við Halldór höfðum rætt málin fram og til baka kvöldið góða á Grænlandi vorum við sammála um að erfitt væri að flytja stofnunina í heild m.a. vegna tengsla við ráðuneytið og aðra stjórnsýslu, sem öll var í Reykjavík. Hafa ber í huga eins og áður kom fram að á þessum tíma voru ekki þau rafrænu samskipti möguleg sem eru í dag. T.d. var enginn með farsíma á þessari kaupstefnu! Spurningin er síðan hvort niðurstaðan hefði orðið sú sama í dag,“ segir Magnús.
Öflugar stofnanir og háskólinn styðja hvort annað
Arnar Már Ólafsson, núverandi ferðamálastjóri, tekur undir með Magnúsi að flutningur á hluta af starfsemi Ferðamálaráðs og opnun á Akureyri hafi reynst gæfuspor. „Á þessum tíma og á árunum á eftir er Háskólinn á Akureyri að vaxa og eflast og engin spurning að hvort um sig styður hitt. Þ.e. það er Háskólanum til stuðnings að starfsemi hins opinbera sé efld í nærumhverfinu, þar skapist möguleikar á fleiri sérfræðistörfum og þar fram eftir götunum. Á móti er síðan háskólasamfélagið auðvitað gríðarleg vítamínsprauta fyrir öfluga starfsemi bæði hins opinbera og einkageirans. Sjálfur kynntist ég þessu af eigin raun þegar stofnað er til kennslu í ferðamálafræði við Háskólann á Akureyri og Rannsóknamiðstöð ferðamála, sem þá nefndist reyndar Ferðamálasetur Íslands, stofnuð. Þar réðist ég sem forstöðumaður og átti ákaflega gefandi ár á Akureyri,“ segir Arnar Már.
Sinna fjölþættum verkefnum
Í dag eru sjö stöðugildi á starfsstöðinni á Akureyri. Hún er til húsa í Hafnarstræti 91 og er forstöðumaður Elías Bj. Gíslason. Verkefnin eru fjölbreytt, m.a. á sviði lögfræði og leyfismála, þróunar og nýsköpunar, svörunar fyrirspurna, gæðamála, útgáfu- og upplýsingamála ofl. Þá má geta þess að auk hinna föstu starfsstöðva í Reykjavík og á Akureyri hafa starfsmenn á undanförnum árum einnig verið með búsetu víðar um landið og erlendis.