30 nýir leiðsögumenn útskrifaðir á Akureyri
Þann 13. maí útskrifuðust síðan 30 nýir leiðsögumenn við Símenntun Háskólans á Akureyri. Forsaga þess er sú að á félagsfundi SAF, sem haldinn var á Akureyri vorið 2012, komu fram óskir um að heildstæðu leiðsögunámi yrði komið á fyrir norðan m.a. vegna mikillar eftirspurnar eftir menntuðum leiðsögumönnum í kjölfar fjölgunar ferðamanna til landsins. Einungis hafði verið boðið upp á nám í svæðisleiðsögn fram til þessa.
Samtök ferðaþjónustunnar ákváðu að beita sér fyrir því að heildstæðu leiðsögunámi yrði komið á í samstarfi við Símenntun Háskólans á Akureyri og Leiðsöguskólann í MK . Haustið 2013 hófu síðan 26 nemar leiðsögunámið við Símenntun Háskólans á Akureyri en 10 svæðisleiðsögumenn bættust í hópinn um áramót til að bæta við sig fullum réttindum.
Námið er víðfeðmt og fjölbreytt en því er ætlað að vera hagnýtt og taka mið af ólíkum þörfum ferðaþjónustunnar í takt við breytilegt ferðamynstur ferðamanna. Nemendur eru fræddir um leiðsögutækni, helstu ferðamannastaði, íslenskt samfélag, jarðfræði landsins, sögu og menningu, gróður og náttúruvernd, atvinnuvegi, bókmenntir og listir auk þjálfunar í erlendu kjörmáli svo nokkuð sé nefnt. Kennt var síðdegis eftir hefðbundinn vinnudag og farnar vettvangsferðir um helgar með SBA- Norðurleið.