500. ferðaskipuleggjendaleyfið afhent
Nú hefur þeim áfanga verið náð að Ferðamálastofa hefur gefið út 500 leyfi til ferðaskipuleggjenda hér á landi. Það sem af er þessu ári hafa 70 ný leyfi verið gefin út.
Við gildistöku nýrra laga um skipan ferðamála í ársbyrjun 2006 tók Ferðamálastofa við útgáfu leyfa til ferðaskrifstofa og ferðaskipuleggjenda og eftirliti með starfsemi þeirra. Þá var í lögunum tekin upp skráningarskylda upplýsinga- og bókunarmiðstöðva. Fyrsta skírteinið var gefið út 6. febrúar það ár. Í dag eru ferðaskrifstofur um 140 talsins og ferðaskipuleggjendur 500, sem fyrr segir.
Býður upp á sjóböð
Benedikt S. Lafleur er 500. ferðaskipuleggjandinn með fyrirtæki sitt Lafleur web slf. Benedikt er mörgum kunnur fyrir áhuga sinn og árangur í sjósundi og því kannski ekki að undra að hann hyggst einmitt bjóða fólki upp á kynningu og leiðsögn í sjóböðum með hinu nýja fyrirtæki.
Átak í eftirliti
Ferðamálastofa hefur eftirlit með leyfis- og skráningarskyldum aðilum og því að skilyrðum fyrir leyfum og skráningu sé fullnægt. Enn fremur hefur stofnunin eftirlit með ólöglegri starfsemi og nú annað sumarið í röð var ráðinn starfsmaður til verkefnisins. Ferðamálastofu er mjög í mun að koma í veg fyrir ólöglega starfsemi en því miður hafa verið brögð að því að aðilar starfi án tilskilinna leyfa. Á leyfisskyldum aðilum hvílir sú skylda að birta myndrænt auðkenni frá Ferðamálastofu á heimasíðum sínum og í útgefnu efni. Því er mikilvægt að neytendur séu meðvitaðir um hvaða ferðaþjónustuaðilar hafa tilskilin leyfi og beini viðskiptum sínum til þeirra. Jafnframt að fólk geri Ferðamálastofu viðvart ef það hefur grun um að starfsemi sé stunduð án leyfis.
Einfalt að sækja um leyfi
Umsókn um ferðaskipuleggjenda- og ferðaskrifstofuleyfi er hvorki flókinn né kostnaðarsamur ferill. Að auki er kostnaður við þau vottorð sem þarf að afla og tryggingar. Allar nánari upplýsingar um leyfisumsóknir má finna hér á vefnum undir „Leyfismál“.