584 milljónum króna úthlutað úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða
Í dag tilkynnti Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála, menningar- og viðskiptaráðherra, um úthlutanir úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða fyrir árið 2022. Úthlutunin að þessu sinni nemur rúmum 584 milljónum króna til 54 verkefna um allt land en hæsti einstaki styrkurinn er rúmar 55 milljónir króna.
Framkvæmdasjóður ferðamannastaða er í vörslu Ferðamálastofu en sérstök stjórn er yfir sjóðnum. Markmið og hlutverk sjóðsins að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða og ferðamannaleiða um land allt og styðja með því við þróun ferðaþjónustu sem mikilvægrar og sjálfbærrar stoðar í íslensku atvinnulífi. Sjóðurinn fjármagnar framkvæmdir á ferðamannastöðum og ferðamannaleiðum í eigu eða umsjón sveitarfélaga og einkaaðila.
Vel heppnaðar framkvæmdir hringinn í kring um Ísland
Mikill árangur hefur náðst í starfi sjóðsins í að bæta innviði um land allt og auka getu svæðanna til að taka á móti ferðamönnum. Síðastliðin tvö ár hafa verið metár með tilliti til umfangs framkvæmda á ferðamannastöðum auk þess sem sjóðurinn hefur fengið auknar fjárveitingar.
Hlaðborð menningar, nýsköpunar og ferðaþjónustu
„Íslensk ferðaþjónusta hefur nýtt tímann vel undanfarið, þrátt fyrir flóknar áskoranir, og staðið vel og rækilega að uppbyggingu. Það þýðir að hringinn í kringum landið hafa verið byggðir upp einstakir áfangastaðir og í öllum landshlutum má finna hlaðborð menningar, nýsköpunar og ferðaþjónustu. Mig langar að hvetja ykkur öll til að ferðast um Ísland, heimsækja stórfenglega náttúru okkar og upplifa menninguna hringinn í kringum landið,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra í frétt á vef ráðuneytisins.
Skoða má upplýsingar um úthlutaða styrki á kortasjá.
Fjölbreytt verkefni um allt land
Verkefnin sem hljóta styrk eru að vanda afar fjölbreytt en hverfast öll um öryggi ferðamanna, bætt aðgengi, bætta innviði, náttúruvernd og sjálfbærni. Ráðherra hyggist heimsækja fjölda áfangastaða sem hafa fengið styrki úr sjóðnum á undanförnum árum á kjörtímabilinu.
„Styrkirnir fara til verkefna hringinn í kringum landið, stórra sem smárra, sem öll skipta máli. Uppbyggingin er grundvölluð á heildarsýn fyrir hvern landshluta og áfangastaðaáætlanir. Styrkur úr sjóðnum stuðlar að bættri upplifun og aðgengi ferðamanna, bættu öryggi og við styðjum við viðkvæma náttúru landsins. Með þessu stuðlum við að sjálfbærni þeirra og tryggjum framtíð þeirra sem áfangastaða um ókomna tíð,“ segir ráðherra.
Þau verkefni sem fá einna hæstu styrkina að þessu sinni eru:
- Fossabrekkur í Ytri-Rangá 55.200.000 kr.
- Öryggismál og aðgengi við Norðurfjarðarhöfn 55.000.000 kr.
- Bætt öryggi með nýjum útsýnisstíg vegna Eyjafjallagossins 35.837.307 kr.
- Útsýnis - og áningastaðir á austurbakka Stuðlagils 31.250.044
- Stuðlagil - bætt öryggi við aðkomu 22.590.000 kr.
Alls bárust sjóðnum 154 umsóknir um styrki að fjárhæð kr. 2.715.357.819,- til verkefna að heildarfjárhæð kr. 3.607.541.198.
Nánari upplýsingar:
Kortasjá með upplýsingum um úthlutaða styrki
Úthlutun 2022 (PDF)