610 milljóna króna úthlutun úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða
Mynd: Eldgjá í Vatnajökulsþjóðgarði er meðal staða sem notið hafa styrkja Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða.
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ráðherra ferðamála hefur staðfest tillögu stjórnar Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða um úthlutun vorið 2017. Alls eru veittir styrkir til 58 verkefna hringinn í kringum landið og nemur heildarfjárhæð styrkja 610 milljónum króna.
Vegagerðin þróar ölduspákerfi vegna Reynisfjöru og Kirkjufjöru
Að auki hefur ráðherra falið Ferðamálastofu að ganga til samninga við Vegagerðina um þróun á ölduspákerfi vegna Reynisfjöru og Kirkjufjöru. Tilgangurinn er að hægt verði að spá fyrir um hættulegar aðstæður, vara við þeim með viðvörunarflaggi og mögulega grípa til aukinnar gæslu. Fjármögnun verkefnisins er af fé sem sett var til hliðar af fjárveitingum Framkvæmdasjóðsins 2016 í þágu öryggismála og er gert ráð fyrir að kostnaðurinn verði um það bil 20 m.kr.
Hæstu styrkir
Hæsti styrkurinn í þessari úthlutun er að upphæð 60 m.kr. til verkefna í Landmannalaugum. Næsthæsti styrkurinn nemur 31,2 milljónum vegna verkefna í Rauðfeldargjá á Snæfellsnesi.
3,5 milljarðar frá upphafi
Þetta er sjötta árið sem Framkvæmdasjóður ferðamannastaða úthlutar styrkjum. Hlutverk sjóðsins er samkvæmt lögum að 1) stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða í opinberri eigu eða umsjón um land allt, 2) leitast við að tryggja öryggi ferðamanna og vernda náttúru landsins, og 3) fjölga viðkomustöðum ferðafólks til að draga úr álagi á fjölsótta ferðamannastaði.
Með úthlutuninni í ár nemur heildarupphæð styrkveitinga úr sjóðnum 3,56 milljörðum króna.
Endurskoðun á hlutverki sjóðsins
Fyrir dyrum er endurskoðun á hlutverki sjóðsins sem tekur mið af því að komin er til sögunnar Landsáætlun á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins um uppbyggingu innviða vegna álags af völdum ferðamennsku og útivistar. Drög að lagabreytingu um sjóðinn hafa verið birt á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og gera þau ráð fyrir að sjóðurinn sinni verkefnum á ferðamannastöðum í eigu eða umsjón sveitarfélaga og einkaaðila. Frestur til að gera athugasemdir við frumvarpsdrögin er til 23. mars.