66 þúsund ferðamenn í mars
Um 66 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu í nýliðnum mars samkvæmt talningum Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða um 17.300 fleiri en í mars á síðasta ári. Um er að ræða 35,3% fjölgun ferðamanna í mars milli ára. Ferðamannaárið fer því óvenju vel af stað en fyrr á árinu hefur Ferðamálastofa birt fréttir um 40,1% aukningu milli ára í janúar og 31,2% aukningu í febrúar.
Bretar og Bandaríkjamenn helmingur ferðamanna
Bretar voru fjölmennastir eða 31,9% af heildarfjölda ferðamanna en næstfjölmennastir voru Bandaríkjamenn eða 18,5% af heild. Þar á eftir komu Norðmenn (5,3%), Þjóðverjar (5,2%), Frakkar (4,5%), Danir (4,2%), Kanadamenn (3,5%), Svíar (2,9%), Hollendingar (2,8%) og Japanir (2,4%). Samtals voru framangreindar tíu þjóðir 81,2% ferðamanna í mars. Af einstaka þjóðernum fjölgaði Bretum, Bandaríkjamönnum og Kanadamönnum mest milli ára en 5.635 fleiri Bretar komu í mars í ár, 5.255 fleiri Bandaríkjamenn og 1.260 fleiri Kanadamenn. Þessar þrjár þjóðir báru að mestu leyti uppi aukninguna í mars milli ára eða um 70% af heildaraukningu.
Þróun á tímabilinu 2002-2014
Þegar þróunin er skoðuð frá árinu 2002, eða á því tímabili sem Ferðamálastofa hefur verið með talningar í gangi í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, má sjá hvað ferðamönnum hefur fjölgað gríðarlega. Ferðamenn eru nú fjórfalt fleiri en þeir mældust í mars 2002. Aukning hefur oftast verið milli ára, þó mismikil. Mest hefur hún verið síðastliðin þrjú ár en þá fjölgaði ferðamönnum um 39 þúsund, eða úr 27 þúsund árið 2011 í 66 þúsund árið 2014. Þegar einstök markaðssvæði eru skoðuð má sjá að mest áberandi er aukning Breta, Bandaríkjamanna og ferðamanna sem flokkast undir önnur markaðssvæði. Ferðamönnum frá Mið- og Suður-Evrópu hefur fjölgað jafnt og þétt en þó mest síðastliðin tvö ár. Norðurlandabúum hefur hins vegar fjölgað jafnar á tímabilinu.
165 þúsund ferðamenn frá áramótum
Það sem af er ári hafa 165.232 erlendir ferðamenn farið frá landinu eða um 43 þúsund fleiri en á sama tímabili í fyrra. Um er að ræða 35,3% aukningu milli ára. Veruleg aukning hefur verið frá flestum mörkuðum; N-Ameríkönum hefur fjölgað um 57,3%, Bretum um 45,9%, Mið- og S-Evrópubúum um 19,2%, og ferðamönnum frá öðrum mörkuðum um 38,1%. Norðurlandabúum hefur fjölgað í minna mæli eða um 5,1%.
Ferðir Íslendinga utan
Um 24 þúsund Íslendingar fóru utan í mars síðastliðnum, tæplega þrjú þúsund færri en í mars árið 2013 en þess má geta að þá voru páskarnir í mars. Frá áramótum hefur svipaður fjöldi Íslendinga farið utan og á sama tímabili í fyrra eða um 71 þúsund talsins.
Nánari upplýsingar
Talningar Ferðamálastofu ná yfir allar brottfarir frá landinu um Leifsstöð. Skiptingu milli landa má sjá í töflunni hér að neðan og nánari upplýsingar undir liðnum Tölur og útgáfur / Fjöldi ferðamanna hér á vefnum.