Fara í efni

68 þúsund brottfarir erlendra farþega í janúar

Hornstrandir. Mynd: Markaðsstofa Vesturlands
Hornstrandir. Mynd: Markaðsstofa Vesturlands

 

Brottfarir erlendra farþega* frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru tæplega 68 þúsund í nýliðnum janúarmánuði eða fjórtán sinnum fleiri en í janúar á síðasta ári samkvæmt talningu Ferðamálastofu og Isavia.

Tæplega fjórðungur brottfara var tilkominn vegna Breta og um fimmtungur vegna Bandaríkjamanna. Brottfarir erlendra farþega í janúar mælast nú álíka margar og þær gerðu á árunum 2015-2016. 

 

 

 

 

Bretar fjölmennastir í janúar að nýju 

Brottfarir Breta í janúar voru um 16 þúsund talsins eða um 24% af heildarbrottförum en Bretar hafa allt frá árinu 2003 verið fjölmennasta þjóðernið í janúar, með undantekningu árið 2021. Þegar mest var mældust þeir tæplega 38 þúsund í janúar 2017.

Bandaríkjamenn voru í öðru sæti í janúar, 14 þúsund talsins en brottfarir þeirra voru um fimmtungur af heild (20,7%). Þegar mest var mældust þeir um 33 þúsund í janúar 2018.

Brottfarir Pólverja voru í þriðja sæti í janúar síðastliðnum (6,3% af heild)  en þar á eftir fylgdu Þjóðverjar (5,7% af heild), Ítalir (5,2% af heild), Hollendingar (3,6% af heild), Frakkar (3,3% af heild), Eystrasaltsbúar (2,9% af heild), Kínverjar (2,7% af heild) og Spánverjar (1,8% af heild). Samtals voru brottfarir tíu stærstu þjóðerna 76,2% í janúar.

 

Brottfarir Íslendinga

Brottfarir Íslendinga í janúar voru um 15 þúsund talsins en í sama mánuði í fyrra voru þær um sex þúsund. Hlutfall Íslendinga í heildarbrottförum í janúar hefur aldrei mælst minna frá því að Ferðamálastofa hóf talningar á Keflavíkurflugvelli árið 2002.

*Nánari upplýsingar

Nánari skiptingu á milli þjóðerna má sjá í töflunni að neðan og frekari upplýsingar eru undir liðnum Tölur og útgáfur / Fjöldi ferðamanna hér á vefnum.

Niðurstöður um brottfarartalningar má jafnframt nálgast í Mælaborði ferðaþjónustunnar undir liðnum Farþegar.