Á leið til sjálfbærrar ferðaþjónustu?
Um allan heim er áhersla á sjálfbærni í ferðaþjónustu stöðugt vaxandi og viðskiptavinir kjósa í auknum mæli að eiga viðskipti við fyrirtæki sem sýna ábyrgð og góða frammistöðu á því sviði.
Sjálfbær ferðaþjónusta hefur verið skilgreind sem hvers konar þróun eða starfsemi sem ber virðingu fyrir umhverfinu, tryggir verndun náttúrulegra og menningarlegra auðlinda til langs tíma og er ásættanleg og réttlát frá félagslegu og efnahagslegu sjónarmiði.
Í gæða og umhverfisviðmiðum Vakans er áhersla á sjálfbærni alltumlykjandi. Eitt af hjálpargögnum Vakans er gátlistinn Á leið til sjálfbærrar ferðaþjónustu. Gátlistinn er gott verkfæri fyrir ferðaþjónustuaðila til að meta hvernig fyrirtækið þeirra stendur sig með tilliti til sjálfbærni. Í honum má finna rúmlega 100 hugmyndir um aðgerðir sem hægt er að grípa til á leið til sjálfbærrar ferðaþjónustu. Gátlistinn hefur nú verið endurskoðaður og endurbættur og eru allir ferðaþjónustuaðilar hvattir til að skoða hann og setja sér markmið í átt að sjálfbærari ferðaþjónustu.
Hér má nálgast gátlistann.