Aðalfundur Samtaka ferðaþjónustunnar 2004
Aðalfundur Samtaka ferðaþjónustunnar var haldinn þann 25. mars sl. í Súlnasal Hótel Sögu. Góð mæting var á fundinn og fróðleg erindi flutt.
Jón Karl Ólafsson, formaður SAF, setti fundinn og síðan flutti Sturla Böðvarsson samgönguráðherra erindi sem hann nefndi "Starfsumhverfi ferðaþjónustunnar". Meginefni fundarins var Stefnumótun SAF. Fyrst kynnti Jón Karl helstu markmið hennar og að því loknu voru flutt erindi um fjárfestingu í íslenskri ferðaþjónustu. Það gerðu þeir Andri Már Ingólfsson, Heimsferðum og Hreiðar Már Sigurðsson, KB banka. Þá var komið að almennum aðalfundarstörfum. Á aðalfundi 2003 var Jón Karl kjörinn formaður til tveggja ára og aðrir í stjórn SAF eru Anna Sverrisdóttir, Bláa lóninu; Hrönn Greipsdóttir, Radisson SAS Hótel Sögu; Pétur Óskarsson, Ferðaskrifstofunni Kötlu DMI; Signý Guðmundsdóttir, Guðmundi Jónassyni hf. Stefán Eyjólfsson, Íslandsferðum og Steingrímur Birgisson, Bílaleigu Akureyrar. Stjórnir fagnefnda og samþykktir aðalfundarins er að finna á vefsvæði samtakanna og eins þau erindi sem flutt voru á fundinum.
Kvöldverðarhóf félagsmanna og gesta var síðan haldið um kvöldið og var þar fjölmenni og dansað frá á nótt. Daginn eftir þann 26. mars var síðan Markaðstorg SAF en það stóð nú í fyrsta skipti í heilan dag. Fjölmargir félagsmenn kynntu vörur sínar og þjónustu fyrir starfsfólki ferðaskrifstofanna og var ekki annað að heyra en að þessi nýbreytni hefði mælst vel fyrir. Þá voru nokkur fyrirtæki með kynningu á vörum og þjónustu sem gagnast ferðaþjónustunni.