Áfangastaðaáætlun á Vestfjörðum
Á Vestfjörðum leiðir Markaðsstofu Vestfjarða vinnu við gerð áfangastaðaáætlana í samstarfi við sveitarfélög á svæðinu og aðra hagsmunaaðila.
Frá því vinna hófst við áfangastaðaáætlunina í vor hefur mikil grunnvinna verið unnin við kortlagningu og stöðugreiningu á ferðaþjónustu á svæðinu. Í þeirri vinnu var meðal annars stuðst við eldri gögn líkt og Stefnumótun vestfirkrar ferðaþjónustu 2016 og Ferðaþjónustugreiningu 2015.
Ein áætlun - þrjú svæði
Unnin er ein áfangastaðaáætlun með þremur aðgerðaáætlunum þar sem Vestfjörðum er skipt upp í þrjú svæði.
- Norðursvæði - Ísafjarðarbær, Bolungarvíkurkaupstaður og Súðarvíkurhreppur
- Suðursvæði - Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur
- Strandir og Reykhólar - Árneshreppur, Kaldrananeshreppur, Strandabyggð og Reykhólahreppur
Opnir fundir á Hólmavík, Ísafirði og Patreksfirði
Lokaafurð áfangastaðaáætlunar eru aðgerðaáætlanir tengdar innviðum, þróun og markaðssetningu. Til að draga fram áherslur svæðanna voru nýverið haldnir opnir fundir á Hólmavík og á Ísafirði. Opinn fundur verður á Patreksfirði í lok janúar.
Á þessum fundum hefur verið farið yfir nokkur atriði sem tengjast vinnu við áfangastaðaáætlunina, en hefur verið dregið fram hver forgangsröðun verkefna hagsmunaaðila verði á svæðunum. Sveitarfélög á Vestfjörðum hafa einnig verið beðin um að forgangsraða hugmyndum að verkefnum á sínum svæðum og á Vestfjörðum í heild.
Forgangslistar samræmdir
Eftir áramót verða forgangslistar samræmdir og þeir lagðir fyrir sveitarstjórnir og svæðisráð áfangastaðaáætlunar á Vestfjörðum sem er skipað níu aðilum.
Ferðamálastofa og Stjórnstöð ferðamálastofa standa sameiginlega að gerð áfangastaðaáætlana (DMP) í samvinnu við markaðsstofur landshlutanna sem fara með verkefnisstjórn áætlanagerðarinnar á sínum svæðum.
Verkefnisstjórar áfangastaðaáætlunar á Vestfjörðum eru Magnea Garðarsdóttir og Díana Jóhannsdóttir, forstöðumaður Markaðsstofu Vestfjarða.
Nánar má lesa um verkefnið á heimasíðu Ferðamálastofu og Markaðsstofu Vestfjarða.