Niðurstöður úr Sumarkönnun Ferðamálastofu
Niðurstöður liggja fyrir úr könnun meðal erlendra ferðamanna sem Maskína sá um að framkvæma fyrir Ferðamálastofu síðastliðið sumar eða á tímabilinu júní til ágúst. Könnunin kemur í framhaldi af sömu könnun sem framkvæmd var á tímabilinu október 2015 til maí 2016 en niðurstöður úr henni voru kynntar á vef Ferðamálastofu í september síðastliðnum.
Ýmsar áhugaverðar niðurstöður má finna í könnuninni sem vert er að bera saman við niðurstöður úr fyrri könnunum.
Ferðin stóðst væntingar og flestir vilja koma aftur
Íslandsferðin stóðst væntingar 95,5% svarenda sem er álíka hátt hlutfall og í vetrarkönnuninni 2015-2016 og sambærilegum könnunum sem framkvæmdar voru á sama tímabili sumrin 2014 (95,6%) og 2011 (96,0%). Niðurstöðurnar gefa því til kynna að ferðamenn til Íslands sumarið 2016 hafi líkt og áður verið mjög sáttir með heimsóknina.
Tæp 82% svarenda töldu líklegt að þeir myndu ferðast aftur til Íslands, sem er álíka hátt hlutfall og sumrin 2014 (83,3%) og 2011 (79,1%). Tæplega helmingur sumargesta 2016 sagðist vilja koma aftur að sumri, um 29% að vori eða hausti og fjórðungur að vetri.
Tilgangur og dvalarlengd
Langflestir voru hér í fríi (90,9%) og var dvalarlengdin að jafnaði um 10,3 nætur eða álíka margar gistinætur og sumrin 2014 og 2011. Algengast var að ferðamenn gistu 8-11 nætur (25,1%) eða 5-7 nætur (24,2%) sumarið 2016.
Flestir að koma í fyrsta sinn til Íslands
Flestir voru að koma í fyrsta skipti eða 86% svarenda, 9,3% höfðu komið að sumri, 5,4% að vori eða hausti og 3,9% að vetri til. Af þeim sem höfðu komið áður höfðu 56,8% komið einu sinni, 27,3% tvisvar til þrisvar og 15,9% fjórum sinnum eða oftar.
Hugmyndin að Íslandsferð
Svarendur nefndu fjölmarga þætti þegar þeir voru inntir eftir því hvaðan hugmyndin að Íslandsferð hefði komið. Flestir eða 57,8% nefndu almennan áhuga á náttúrunni og landinu og tæplega helmingur vini og ættingja. Eins og sjá má af grafi hér til hliðar komu samfélagsmiðlar og vefsíður, alþjóðlegt myndrænt efni sem sýnir íslenskt landslag, grein um Ísland í dagblöðum og tímaritum og fyrri heimsókn þar á eftir. Nokkuð færri eða 46,5% nefndu að þeir hefðu fengið hugmyndina vegna almenns áhuga á náttúrunni sumarið 2014.
Sumarsvarendur 2016 nefndu fjölda annarra þátta í þessu sambandi, s.s. íslenska tónlist (10,5%), ferðaskrifstofu eða flugfélag (8,8%), ferðabæklinga eða ferðahandbækur (8,1%), hestamennsku (5,5%), íslenskar bókmenntir (5,3%) og íslenskar kvikmyndir (4,4%).
Fjölmargir þættir voru síðan nefndir þegar spurt var um það hvaða þættir hefðu haft megináhrif á að ferð var farin. Flestir eða 83% nefndu náttúruna líkt og í fyrri könnunum sem er nokkuð hærra hlutfall en sumrin 2014 og 2011. Næst oftast var nefnt að Ísland væri sá áfangastaður sem svarendur hefðu lengi langað að heimsækja (56,2%) en þar á eftir kom íslensk menning og saga (32,1%), gott tilboð eða lágt flugfargjald (18,9%), möguleikinn á viðkomu á Íslandi (13,0%) og dekur og vellíðan (12,7%).
En hvað í náttúrunni
Þeir sem nefndu náttúruna sem áhrifavald að Íslandsferð voru spurðir um hvað það væri varðandi náttúruna sem heillaði. Um er ræða opna spurningu og þau atriði sem oftast voru nefnd má sjá hér að neðan:
- Fegurð/óspillt/ósnert/náttúra/landslag/óbyggðir 48,6%
- Eldfjöll/hraun 31,8%
- Sérstaða/frábrugðið/fjölbreytni 24,4%
- Jöklar 17,5%
- Fossar 16,0%
- Jarðfræðisaga/jarðfræði/jarðeðlisfræði 13,7%
- Jarðhiti/hverasvæði 11,2%
- Goshverir 8,0%
Ákvörðunar- og kaupferlið
Ferðamenn að sumri til 2016 fengu hugmyndina að Íslandsferð að jafnaði tveimur árum, þremur og hálfum mánuði fyrir ferð. Íslandsferðin var hins vegar bókuð að jafnaði fjórum mánuðum fyrir ferðina sem er nokkuð lengri aðdragandi en í síðustu tveimur sumarkönnunum, þ.e. 2014 og 2011, þegar meðaltalið var 3,5-3,7 mánuðir. Í þeim könnunum var hærra hlutfall sem bókaði minna en tveimur mánuðum fyrir brottför heldur en nú. Tæplega þriðjungur ferðamanna síðastliðið sumar bókaði ferðina innan tveggja mánaða fyrir brottför og 26,1% tveimur til fjórum mánuðum fyrir brottför.
Notkun samfélagsmiðla
Internetið (vefsíður, blogg/samfélagsmiðlar) heldur áfram að auka hlut sinn sem helsta uppspretta upplýsinga áður en ferð er farin en sumarið 2016 nefndu 85,1% Internetið þegar þeir voru spurðir hvar þeir hefðu leitað upplýsinga þegar þeir skipulögðu ferðina. Þetta hlutfall var 75,4% árið 2011.
Sérstaklega var spurt um notkun samfélagsmiðla í aðdraganda ferðar eða á ferðalagi um Ísland. Þriðjungur gesta notaði einhverja samfélagsmiðla og flestir þá í þeim tilgangi að senda einkaskilaboð. Niðurstöður eru sambærilegar þeim sem fengust úr vetrarkönnun nema að færri sumargestir virtust nota samfélagsmiðla til að gera stöðufærslu og fá hugmyndir um gistingu, ferðamöguleika o.fl. en að vetri til.
Ferðaþjónustan almennt með góða einkunn
Í könnuninni er fólk beðið að meta 28 þætti í íslenskri ferðaþjónustu og gefa þeim einkunn á bilinu 0-10. Almennt séð eru þessi atriði að fá heldur hærri meðaleinkunn en fyrir tveimur árum. Hæstu meðaleinkunnina fá þættirnir fjölbreytni í náttúrutengdri afþreyingu (8,87), heildaránægja með náttúrutengda afþreyingu (8,83) og þjónusta fyrirtækja í náttúrutengdri afþreyingu (8,50). Ellefu þættir fóru undir 8 í meðaleinkunn en aðeins einn þáttur í vetrarkönnuninni.
Þættirnir sem fengu lægri meðaleinkunn en átta.
- Þjónusta á gististað 7,98
- Þjónusta á veitingastöðum 7,98
- Vegakerfið í heild 7,92
- Heildargæði veitingastaða 7,91
- Háttsemi gesta 7,90
- Fjölbreytni fyrirtækja í menningartengdri afþreyingu 7,84
- Aðstaða á gististað 7,82
- Ástand vega 7,66
- Hreinlætisaðstaða á ferðamannastöðum 7,50
- Úrval veitingastaða 7,33
- Fjöldi ferðamanna á ferðamannastöðum 6,92
Hvaða svæði og staðir voru heimsótt?
Þegar svarendur eru hins vegar spurðir að því hvaða landshluta þeir hafi heimsótt nefndu 95,6% Reykjavík, 71,2% Suðurland, 50,2% Norðurland, 48,4% Vesturland, 47,0% nágrannasveitarfélög Reykjavíkur, 44,8% Austurland, 39,8% Reykjanes, 29,6% hálendið og 20,0% Vestfirði. Fleiri eru að nefna Vestfirði, Austurland og Norðurland en fyrri sumarkannanir hafa sýnt.
Auk þess var spurt sérstaklega um heimsóknir á 43 staði/svæði vítt og breitt um landið. Fyrir utan dvölina á höfuðborgarsvæðinu sögðust flestir hafa heimsótt staði á Suðurlandi; Gullfoss/Geysi (62,6%), Þingvelli (56,8%), Vík (56,6%), Jökulsárlón (50,2%) og Skóga (48,6%). Fjölsóttustu staðir á Norðurlandi, Akureyri og Mývatnssveit, eru nefndir af 45-46% gesta og Bláa lónið sker sig úr á Reykjanesi með 40,6%.
Upplifun á fjölda ferðamanna
Svarendur voru beðnir um að leggja mat á hvernig þeir upplifðu fjölda ferðamanna á nokkrum völdum stöðum á landinu. Eins og sjá má var mikill munur á svörum þeirra gesta sem komu yfir sumarmánuðina 2016 og þeirra sem komu veturinn 2015-2016 en þessi spurning var þá fyrst lögð fyrir svarendur. Þannig taldi um helmingur að ferðamenn væru of margir á Geysi og Gullfossi, um 40% að þeir væru of margir á Jökulsárlóni og Þingvöllum og um þriðjungur að þeir væru of margir í Landmannalaugum, Reykjavík, á Mývatni og á Dettifossi.
Hvaða afþreyingu var greitt fyrir?
Þegar litið er til þeirrar afþreyingar sem greitt var fyrir þá nefna talsvert fleiri hvalaskoðunarferð og náttúrulaugar, í samanburði við síðustu sumarkönnun, en færri aðrar ferðir með leiðsögumanni. Sundlaugarferðir eru sem fyrr oftast nefndar en að öðru leyti er ekki að sjá miklar breytingar á ferðahegðun frá síðustu sumarkönnun. Oftast var nefnt:
- Sundlaugarferð 61,1%
- Söfn 42,6%
- Hvalaskoðunarferð 34.,9%
- Náttúrulaugar 34,0%
- Aðrar ferðir með leiðsögumanni 31,3%
- Heilsulind/dekur 20,4%
Gönguferð eða fjallganga með leiðsögumanni og heimsókn á safn er sú tegund afþreyingar sem líklegast er að fólk greiði oftar en einu sinni fyrir, þegar aðeins eru teknir þeir sem á annað borð greiða fyrir afþreyingu. Að meðaltali greiddi fólk um tvisvar sinnum fyrir slíka afþreyingu í Íslandsferðinni. Að meðaltali fór fólk 1,78 sinnum í sund.
NPS (Net Promoter Score) 71,6 stig
Út frá niðurstöðum sumarkönnunarinnar var reiknaður NPS stuðull fyrir Ísland sem ferðamannaland en að þessu sinni mældist NPS stuðullinn 71,6 sig, nokkuð lægri en í vetrarkönnuninni 2015-2016 (80,7 stig). Um er að ræða mælikvarða sem er víða notaður til að segja til um mismun á hlutfalli þeirra sem eru tilbúnir að mæla með t.d. ferðamannalandi, fyrirtæki eða vöru og hlutfalli þeirra sem eru líklegri til að mæla gegn sömu þáttum. Þess má geta að NPS mældist 76 stig fyrir Nýja Sjáland árið 2015, 70 stig fyrir Danmörku árið 2014 og 62,7 stig fyrir Bresku Kólumbíu árið 2013.
Gæðavitund
Álíka hátt hlutfall svarenda nefnir nú og í fyrri sumarkönnun að það skipti máli við val þess á ferðaþjónustufyrirtæki að það sé með viðurkennda gæðavottun, eða tæp 62,4%. Hlutfallið var 65,1% árið 2014 og 56,2% árið 2011.
Starfshættir varðandi umhverfismál
Svarendur voru spurðir hvernig þeir hefðu upplifað starfshætti í umhverfismálum. Svörin voru metin á fimm stiga huglægum kvarða. Eins og sjá má af grafi skoruðu umhverfismál varðandi orkunotkun hæst og stjórnun umhverfismála almennt næst hæst. Lægst skoruðu umhverfismál í tengslum við samgöngur og salernismál. Allar einkunnir eru lægri í sumarkönnun en vetrarkönnun að liðnum afþreying og ferðamannastaðir frátöldum.
Hvað má bæta í íslenskri ferðaþjónustu
Þegar svarendur voru inntir eftir því sumarið 2016 hvaða þætti mætti bæta í íslenskri ferðaþjónustu voru fjölmargir þættir nefndir s.s. ástand vega (18,6%), takmörkun á fjölda ferðamanna (16,9%), almenningssalerni (16,0%), kostnaður við mat (13,4%), náttúruvernd (11,7%), hátt verðlag (11,2%), tjaldsvæði (10,5%) og vegamerkingar (9,1%).
Náttúran minnisstæðust sem fyrr
Þegar svarendur voru spurðir að því hvað þrennt þeim hefði þótt minnisstæðast við Íslandsferðina nefndu flestir náttúru/landslag (28,2%), fólkið/gestrisni (19,1%) og jökullón/ísjaka 15,4%. Er þetta með líkum hætti og í síðustu sumarkönnun. Nú nefna nokkru fleiri en síðast fossa, hvalaskoðun og verðlag/kostnað en nokkru færri mat/veitingastaði, Bláa lónið og Reykjavík.
Um könnunina
Með könnuninni var aflað upplýsinga um erlenda ferðamenn sem heimsóttu landið mánuðina júní til ágúst 2016, aðdragandann að Íslandsferðinni, ferðahegðun þeirra á Íslandi, eyðsluhætti og viðhorf þeirra til ýmissa þátta íslenskrar ferðaþjónustu. Um var að ræða netkönnun þar sem netföngum var safnað með skipulögðum hætti í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Úrtakið var 4.710 og var svarhlutfallið 50,2%.
Nánari niðurstöður
Niðurstöður úr könnuninni má nálgast í skýrslunni hér að neðan. Heildarniðurstöður eru settar fram í gröfum þar sem sjá má samanburð við fyrri kannanir þar sem slíkt á við. Einstaka spurningar eru síðan greindar fyrir svör gesta eftir kyni, aldri, starfi, menntun, heimilistekjum, þjóðerni,búsetulandi, markaðssvæðum og tilgangi ferðar. Könnunin verður einnig á næstu dögum birt á gagnvirkum vef með öðrum könnunum Ferðamálastofu.