Fara í efni

Áhyggjur af áhrifum stríðs í Írak á ferðaþjónustuna

MaduraSteini
MaduraSteini

Stríð í Írak er nú orðin staðreynd og innan ferðaþjónustunnar hefur fólk miklar áhyggjur af afleiðingum þess fyrir greinina. Hún var byrjuð að rétta nokkuð úr kútnum eftir hryðjuverkin í Bandaríkjunum 11. september 2001 og spyrja menn sig eðlilega hvort sá bati muni allur ganga til baka.

Bandarískur ferðamarkaður í uppnámi
Í nýútkominni skýrslu um ferðamarkaðinn í Bandaríkjunum, sem unnin var fyrir Ferðamálaráð Evrópu (ETC), er dregin upp mög dökk mynd af ástandinu og þar kemur fram áhrif stríðsins sem þá var yfirvofandi voru þegar orðin sýnileg fyrir nokkru. Sá bati sem flugfélög á Atlantshafsleiðum höfðu náð fram á síðustu mánuðum gekk allur til baka í febrúar og fjöldi farþega 8 stærstu flugfélaganna var litlu hærri en þegar verst áraði í febrúar fyrir rúmu ári síðan. Bandarísk flugfélög höfðu gert ráð fyrir að tapa um 6,7 milljörðum dala á árinu sem leggjast myndi ofan á 19 milljarða dollara tap áranna 2001 og 2002. Áætlað er að stríð gæti þýtt 4 milljarða tap til viðbótar og að 70.000 manns í ferðageiranum myndu missa vinnuna. Þá kemur fram í skýrslunni að á heimsvísu gæti stríð leitt til þess að störfum í ferðaþjónustu myndi fækka um allt að 3 milljónir.

Spenna á milli Bandaríkjanna og Evrópu
Einnig hafa menn áhyggjur af því hvaða áhrif andstaða sumra Evrópuríkja við stríð hefur á ferðir Bandaríkjamanna til Evrópu. Bandarískir fjölmiðlar hafa talsvert lagt málið þannig upp að um sé ræða vaxandi andúð Evrópumanna á Bandaríkjunum og því sem bandarískt er, sem af skiljanlegum ástæðum virkar ekki hvetjandi á ferðalög til Evrópu. Magnús Oddsson, ferðamálastjóri, tekur undir þetta og segir að Ferðamálaráði Íslands, líkt og öðrum ferðamálaráðum í Evrópu, hafi borist nokkuð af bréfum frá fólki í Bandaríkjunum þar sem það lýsir yfir að það muni ekki ferðast til Evrópu vegna andstöðu ríkja þar við Bandaríkin og muni hverja aðra til þess sama. "Þótt það séu einkum tvö Evrópuríki sem nefnd eru í umræddum bréfum þá setja bréfritarar alla Evrópu undir sama hatt í þessu sambandi," segir Magnús.

Við þetta bætist einnig versnandi efnahagsástand í Bandaríkjunum, svo sem met viðskiptahalli, meira atvinnuleysi erfiðleikar á hlutabréfamörkuðum o.fl. Innan ferðaþjónustunnar er víða erfitt ástand og sumaráætlanir í uppnámi vegna þeirrar óvissu sem ríkir.

Stríð myndi þurrka út batann sem náðst hefur
Evrópusamtök ferðaskrifstofa (European incoming tour operators association) gerðu í janúar könnun á meðal aðildarfélaga sinna um það hvernig þau mætu horfurnar fyrir árið 2003 í samanburði við árið 2002 og jafnframt hvernig stríð við Írak gæti haft áhrif. Í stuttu máli var almenn bjartsýni ríkjandi og voru menn að sjá verulega aukningu á eftirspurn frá öllum mörkuðum, mest frá Bandaríkjunum. Kæmi til stríðs óttuðust menn hins vegar að þessi bati yrði að engu og samdráttur yrði í ferðum til Evrópu.

Gripið til mótvægisaðgerða
Hins vegar má einnig finna ljósa punkta. Þannig eru evrópsk flugfélög sem stunda Atlantshafsflug að sýna bata og bandarísk yfirvöld eru einnig að setja verulega aukna fjármuni í markaðs- og kynningarstarf sem efla á ferðamennsku. Á vegum Ferðamálaráðs Evrópu eru uppi áform um markaðsherferð í Bandaríkjunum en tímasetning hennar ræðst nokkuð af því hver þróunin verður í stríðsátökum.

Eins og fram hefur komið hefur Ferðamálaráð Íslands verið að undirbúa hvernig nýta eigi um 100 milljónir króna fjárveitingu frá stjórnvöldum og greininni sjálfri til markaðssóknar í Bandaríkjunum á næstu mánuðum. Magnús Oddsson segir ljóst að stríðið hafi áhrif á þessi áform. "Nú þurfum við að setjast niður og endurskoða hvernig við högum þessari vinnu og það hlýtur að ráðast nokkuð af framgangi stríðsins hvenær farið verður af stað," segir Magnús. Því virðist sem ástandið sé afar viðkvæmt og áhrif stríðs á ferðaþjónustuna velti ekki síst á því hversu lengi það varir.