Fara í efni

All Senses, ferðaþjónustuklasinn á Vesturlandi

snæfellsjökull
snæfellsjökull

All Senses ferðaþjónustuklasinn, sem starfað hefur síðan vorið 2005 og er einn elsti ferðaþjónustuklasinn á Íslandi, fundaði í Landnámssetrinu í vikunni og ákváðu félagar að endurskoða og styrkja  samstarfið þannig að ferðaþjónustan á Vesturland verði sem sýnilegust. Megin áherslan verður á samstarf og stuðning við Markaðsstofu Vesturland og síðan sem öflugt tengslanet meðal aðila innan ferðaþjónustunnar, segir í frétt frá All Senses.

Í upphafi var meginmarkmið klasans að markaðssetja Vesturland sem eina heild, auk þess sem áhersla var lögð á fræðslu- og gæðastarf og mynda öflugt tengslanet og þekkingu á starfsemi hvors annars til að geta kynnt og selt Vesturlandið betur til ferðamanna. Þessi markmið eru í raun enn í fullu gildi en klasinn telur að þeim verði best náð með nánu samstarfi við Markaðsstofuna.

All Senses stóð meðal annars að stofnun Markaðsstofu Vesturlands ásamt Ferðamálasamtökum Vesturlands og SSV. Markaðsstofan hefur síðan tekið að sér sameiginleg kynningar- og markaðsmál fyrir Vesturlandið.

Öflugt tengslanet er ómetanlegt þar sem menn miðla þekkingu og fróðleik sín á milli. Þetta vilja félagar treysta enn betur og vera sterkt bakland við Markaðsstofuna. Klasinn mun því halda áfram starfsemi sinni með vinnufundum og annarri skemmtilegri starfssemi. Eins og allt frá upphafi er klasinn opinn öllum sem áhuga hafa á atvinnugreininni.

Ný stjórn klasans skipa Anna Dröfn Sigurjónsdóttir, Shelagh Smith og Arngrímur Hermansson. Þórdís Guðrún Arthursdóttir hefur verið verkefnisstjóri frá upphafi og mun hún starfa áfram með klasanum.
Þeir sem hafa áhuga á að vera með í All Senses samstarfinu geta skráð sig hjá Þórdísi, tga@simnet.is.

Mynd: Snæfellsjökull / vesturland.is