All Senses fundaði á Grundarfirði
All Senses ferðaþjónustuklasinn á Vesturlandi gekkst fyrir tveggja daga fundi á dögunum. Komið var saman á Grundarfirði og þar var meðal annars farið yfir viðamikla viðhorfskönnun sem All Senses gekkst fyrir meðal gesta sinna síðastliðið sumar.
Markmiðið með könnuninni var að fá hjálp frá viðskiptavinum til að meta þjónustuna sem All Senses félagar veita og fá upplýsingar um hvaða afþreyingu og þjónustu ferðamenn nýta sér. Einnig var markmiðið að fá upplýsingar, sem hægt er að nýta í markaðslegu sjónarmiði svo sem hvaðan erlendir aðilar fá upplýsingar um svæðið, hvernig þeir ferðast um og margt fleira.
Könnunin var framkvæmd þrisvar sinnum; 22. maí-4, júní, 10.-20. júlí og 20.-30. ágúst. Þetta var gert til að vita hvort mismunur væri á þjónustu á þessum tímabilum það er að segja í upphafi sumars, um háannatíma og eða í lok sumars. Það kom bersýnilega í ljós að viðmót starfsfólks, upplýsingagjöf og hreinlæti dalar á háannatíma.
Brugðist við ábendingum
Eitt af því sem kom fram í könnuninni var að upplýsingagjöf starfsfólks um hvað hægt væri að gera á svæðinu væri ekki nógu góð. Fundurinn á Grundarfirði var viðbrögð við þeirri ábendingu. ?Fyrri daginn far farið yfir hvað væri að gerast í okkar nær- og fjærumhverfi. Þar var kynnt þau verkefni sem eru í gangi á svæðinu svo sem Krókaverkefni, Krakkar ráða för, Dalirnir heilla, Sögulandið Vesturland, touristonline.is og fréttir af Breiðarfjarðarfléttunni, sem leggur áherslu á fuglaskoðunarferðir. Daginn eftir var unnið í vinnuhópum og lögð fram framkvæmdaáætlun um það hvernig við getum brugðist við ábendingum um betra viðmót og upplýsingagjöf starfsfólks og huga betur að hreinlæti sérstaklega á háannatíma,? segir Þórdís G. Arthursdóttir hjá All Senses.
Gaman saman
All Senses lítur á það sem sitt hlutverk að: Auka gæði, arðsemi og sýnileika ferðaþjónustu á Vesturlandi, með fagmennsku og öflugu tengslaneti.
Og markmiðin eru skýr: 1) Að auka arðsemi fjárfestinga 2) Byggja upp fagmennsku og tengslanet og 3) hafa gaman saman.
Samveran er gífurlega mikilvæg þar myndast traust og trúnaður og ómetanlegt tengslanet. Lagt er upp úr því að halda fundina til skiptis hjá félögunum svo þeir kynnist betur starfsemi hvors annars. Þannig verða þeir betri sölumenn fyrir svæðið og geta að auki rætt af reynslu og þekkingu um starfsemi félaganna. Þessar samkomur eru mjög skemmtilegar og gefandi enda í hópnum öflugt og kraftmikið fólk.
Stjórn All Senses er í dag skipuð þeim Hansínu B. Einarsdóttur Hótel Glym, Steinar Berg Fossatúni. Kjartani Ragnarssyni Landnámssetrinu, Shelagh Smith Hótel Framnesi og Guðnýju Dóru Gestsdóttur Gljúfrasteini. Þórdís Guðrún Arthursdóttir hefur verið verkefnisstjóri frá upphafi. Myndin hér að neðan var tekin af hópi fundarmanna á Hótel Framnesi.