Allrahanda tekur yfir ferðaþjónustu á Hveravöllum
Húnavatnshreppur, aðaleigandi Hveravallafélagsins ehf., hefur samið við Iceland Excursions Allrahanda ehf. um uppbyggingu ferðaþjónustu á Hveravöllum og að fyrirtækið kaupi meirihluta í Hveravallafélaginu ehf.
Hús færð fjær hverasvæðinu
„Við hyggjum á töluverða uppbyggingu á Hveravöllum á næstu árum, með það í huga að vernda friðlandið og tryggja jákvæða upplifun ferðamanna af þessu einstaka umhverfi. Í þeim tilgangi verða húsakynni rifin eða færð og ný reist fjær hverasvæðinu. Vegna sögulegs gildis mun gamli skálinn á Hveravöllum þó standa áfram. Tjaldstæðið verður sömuleiðis fært frá kjarna friðlandsins en þær framkvæmdir sem settar verða í forgang á þessu ári snúa að frárennsli og veitum ásamt hönnun á nýjum fjallaskála innan þess deiliskipðulags sem er í gildi á svæðinu,“ segir Þórir Garðarsson, markaðs- og sölustjóri Iceland Excursions Allrahanda sem og nýr stjórnarformaður Hveravallafélagsins, í fréttatilkynningu.
Styðja við náttúruna
„Hveravellir eru náttúruparadís á hálendinu og öll þjónusta og uppbygging þarf að taka mið af því. Markmið okkar er að skyggja ekki á náttúruna heldur styðja við hana. Við stefnum að því að aðstaðan verði sjálfbær hvað varðar vatn og orku og ætlum að virkja gufuborholu sem þar er til að framleiða rafmagn“.
Stefnt á heilsársopnun
„Hveravallafélagið hefur átt mjög gott samstarf við Umhverfisstofnun og svo verður áfram, enda er okkur mikið í mun að vernda náttúruvætti sem er að finna á Hveravöllum og að tryggja aðdráttarafl þeirra áfram. Við stefnum að því að geta haft opið á Hveravöllum allan ársins hring og teljum að það geti orðið mjög eftirsóknarverð upplifun fyrir ferðamenn að fara upp á hálendið á miðjum vetri,“ segir Þórir ennfremur.
Sjálfseignarstofnun Auðkúluheiðar á landið á Hveravöllum og hefur Hveravallafélagið lóðaleigusamning um nýtingu þess næstu áratugina, samtals um 50 hektara.