Fara í efni

Alltaf eitthvað nýtt á hverju ári

Gullfoss
Gullfoss

Í lok sumars er almennt mjög gott hljóð í ferðaþjónustuaðilum í Uppsveitum Árnessýslu, að sögn Ásborgar Arnþórsdóttur, ferðamálafulltrúa. Víðast varð aukning frá því í fyrra og á sumum stöðum veruleg.

"Það var mikil aukning á tjaldsvæðunum og í hvers kyns afþreyingu. Einnig varð töluverð aukning á gististöðum og þá kannski mest hjá minni stöðum, t.d. í bændagistingu, á farfuglaheimilum og þar sem leigð eru út sumarhús. Það er alltaf eitthvað nýtt á hverju ári, því uppbygging hér hefur verið mikil undanfarin ár. Við erum að sjá heilmikla aukningu á framboði í afþreyingu sem er mjög jákvætt. Slíkt fær fólk til að stoppa lengur og styrkir svæðið," segir Ásborg.

Háönnin að lengjast
Haustið hefur að hennar sögn einnig verið mjög gott og sem betur fer sé háönnin alltaf heldur að lengjast í báða enda, fram á haustið og vorið. "Hér er ennþá töluvert af ferðafólki, enda dettur ferðamennskan aldrei alveg niður í Uppsveitunum. Hingað kemur fólk allt árið um kring og þar njótum við nálægðarinnar við höfuðborgarsvæðið. Ferðaþjónustuaðilar eru líka afar hugmyndaríkir varðandi veturinn en það er ekki þar með sagt að það sé auðvelt að ná inn verulegum vetrarviðskiptum."

Þurfum að halda vöku okkar
Hún bendir á að fólkmegi aldrei sofna á verðinum þótt vel gengi. "Ferðamynstur er síbreytilegt og það þarf alltaf að vera að skoða það og bregðast við. Hér er t.d. verið að endurskoða stefnumótun í ferðaþjónustu á svæðinu sem unnið hefur verið eftir undanfarin ár. Svæðið er gífurlega fjölsótt og þess vegna þarf að vera vel á verði svo við séum örugglega að bjóða öllum þessum gestum upp ferðaþjónustu sem stendur undir kjörorðunum okkar "Gæði og gestrisni". Við verðum að tryggja vel alla grunnþjónustu og aðgengi án þess að ganga á auðlindina. Sérstaklega þarf að standa vörð um fjölsótta staði og náttúruperlur og þær eigum við fjölmargar hér í Uppsveitunum. Við þurfum m.ö.o. sífellt að vera að bæta og byggja upp til framtíðar," segir Ásborg.

Mikill umferðarþungi
Samgöngur eru mikilvægur þáttur í ferðaþjónustu og í þeim efnum þar að huga að ýmsu að sögn Ásborgar. ".Umferðarþunginn hér um slóðir er orðinn verulegur og mikilvægt að bregðast við því. Vaxandi fjöldi ferðamanna ferðast á eigin vegum á bílaleigubílum, sumarhúsafólk er á ferðinni, hjólreiðamenn og fólk með tjaldvagna og fellihýsi. Við þetta bætist síðan mjög mikil umferð hestamanna en hér í gegn fer í gegn stór hluti skipulagðra hestaferða og sleppitúra. Þannig er ljóst að það eru að mörg verkefni eru framundan í vega- og reiðvegagerð.

Gæði og fjölbreytni lykilþættir
Aðspurð hvaða tækifæri fólk sjái helst á svæðinu til að styrkja ferðmennskuna til lengri tíma litið segir Ásborg að af nógu sé að taka. "Tækifærin hér eru fölmörg. Fyrst og fremst er mikilvægt að ferðaþjónustuaðilar haldi áfram að bjóða upp á gæði og fjölbreytni í þjónustu. Ferðamenn í dag gera kröfur og mega ekki verða fyrir vonbrigðum. Góð samvinna er mjög mikilvæg jafnt innan svæðis sem utan og umfram allt jákvæðni. Vöruna þarf að kynna á aðgengilegan hátt fyrir kaupendum, gjarnan setja saman tillögur og hugmyndir fyrir þá sem ekki þekkja til, einhvers konar pakka. Það auðveldar sölu. Það er verið að gera virkilega góða hluti í ferðaþjónustu víða um land en veikasti hlekkurinn er kannski sá að það vantar fé til öflugri markaðssetningar. Allar samgöngubætur styrkja ferðamennskuna og óskastaðan væri auðvitað að sjá meiri stuðning við frumkvöðla og góðar hugmyndir," segir Ásborg að lokum.