Fara í efni

Alþingi samþykkir ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030

Hveradalir í Kerlingarfjöllum. Mynd Halldór Arinbjarnarson
Hveradalir í Kerlingarfjöllum. Mynd Halldór Arinbjarnarson

Alþingi samþykkti nú fyrr í dag tillögu til þingsályktunar, sem Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra lagði fram í apríl, um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030. Öðlast þingsályktunin þegar gildi.

 

Metnaðarfull framtíðarsýn

Með samþykkt þingsályktunar um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030 er um ákveðin tímamót að ræða sem birtist í heildstæðri stefnumótun á sviði ferðaþjónustu með víðtækri þátttöku haghafa og almennings, segir í frétt á vef ráðuneytisins. Þar er m.a. haft eftir ráðherra að vönduð og yfirgripsmikil vinna fjölda sérfræðinga og hagaðila skili sér í metnaðarfullri framtíðarsýn sem hún bindi miklar vonir við að muni auka stöðugleika og sjálfbærni ferðaþjónustunnar. "Það er mikið gleðiefni inn í ferðasumarið að sjá hversu samstíga þingið er í að styðja við stærstu gjaldeyrisskapandi atvinnuveg þjóðarinnar og um leið að skorast ekki undan þeirri ábyrgð sem fylgir því að varðveita og virða landið okkar. Ég óska okkur öllum gleðilegs ferðasumar og hlakka til þess að fylgjast með metnaðarfullri aðgerðaáætlun raungerast á næstu árum," segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

 

Viðamikið samráð

Grunninn að ferðamálastefnu og aðgerðaáætluninni mynda 12 áherslur sem deilast á fjórar lykilstoðir ferðaþjónustu; þ.e. efnahag, samfélag, umhverfi og gesti. Sjö starfshópum var í maí 2023 falið var að vinna tillögur að aðgerðum en verkefnið í heild hefur verið leitt af stýrihóp á vegum menningar- og viðskiptaráðuneytis, með helstu haghöfum. Viðamikið samráð var haft við mótun stefnunnar og m.a. haldnir opnir umræðu- og kynningarfundir í öllum landshlutum.

 

43 skilgreindar aðgerðir

Á grunni framangreindrar vinnu var gengið frá tillögu til þingsályktunar um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030 og hún lögð fyrir Alþingi 15. apríl. Í þingskjalinu koma fram 43 skilgreindar aðgerðir sem ætlað er að fylgja eftir áherslum ferðamálastefnu og þeim markmiðum sem þar koma fram. Dreifast þær á lykilstoðir ferðaþjónustu.

Meðal aðgerða má nefna:

  • Markviss og viðvarandi markaðssetning á Íslandi sem áfangastað
  • Innleiðing álagsstýringar á ferðamannastöðum
  • Breytt fyrirkomulagi á gjaldtöku af ferðamönnum
  • Aukið eftirlit með heimagistingu og hert skilyrði
  • Grunninnviðir fyrir rannsóknir, greiningu og stefnumótun í ferðaþjónustu
  • Uppbygging millilandaflugvalla styðji við dreifingu ferðamanna
  • Endurskoðun á regluverki fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu og skilvirkara eftirlit
  • Fjölgun fyrirtækja með umhverfis- og/eða sjálfbærnivottanir
  • Efling náms í ferðaþjónustu þvert á skólastig

Nánari upplýsingar má finna hér