Arcanum til liðs við Vakann
Dagný H. Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Suðurlands, með þeim Tómasi Birgi Magnússyni og Benedikt Bragasyni frá Arcanum.
Enn fjölgar í hópi gæðafyrirtækja sem ganga til liðs við Vakann. Arcanum hefur nú lokið innleiðingarferli með glæsibrag og auk gæðavottunar fyrir afþreyingu þá hlýtur gistiheimili fyrirtækisins einnig viðurkenningu sem fjögurra stjörnu gistiheimili í Vakanum.
Arcanum hefur starfað í yfir 20 ár og boðið upp á vélsleðaferðir og jöklagöngu á Mýrdals- og Sólheimajökli og fjórhjólaferðir á Sólheimasandi, ásamt rekstri á gistiheimili og nú síðast kaffihúsi inn á Sólheimajökli. Að sögn Tómasar Birgis Magnússonar, framkvæmdastjóra, hafa starfsmenn Arcanum lagt mikla vinnu í þetta verkefni og hefur það hjálpað á margan hátt með að halda betur utan um ýmsa þætti rekstursins. Hann segir: „Uppbyggingin hjá okkur hefur verið mjög hröð á undanförnum árum og fyrirtækið farið úr því að vera fyrirtæki þar sem eigendurnir voru allt í öllu í að vera fyrirtæki með marga starfsmenn með mismunandi hlutverk. Í því ferli hefur verið gott að geta leitað í það efni sem Vakinn hefur gefið út og höfum við haft það til hliðsjónar í þessari uppbyggingu, sem fyrir vikið hefur orðið markvissari og betri fyrir okkar starfsemi og þá þjónustu sem við viljum veita viðskiptavinum okkar. Við erum mjög ánægð með að vera kominn í Vakann. Þetta hefur verið mikil en jafnframt mjög skemmtileg vinna, sem verður gaman að halda áfram með og þróa og mun án efa koma okkur að góðum notum um ókomna tíð“.