ArcticHubs – áhugaverð vinnustofa hjá Háskóla Íslands um eflingu sjálfbærni og seiglu á norðurslóðum
Á síðastliðnu ári var ýtt úr vör alþjóðlegu þverfaglegu rannsóknarverkefni, ArcticHubs, með það meginmarkmið að efla sjálfbærni og seiglu jaðarsvæða á norðurslóðum. Ætlunin er að þróa rannsóknamiðaðar og hagnýtar lausnir til að mæta þeim áskorunum sem norðurslóðir standa nú frammi fyrir. Lögð verður áhersla á heildarsýn og heildarhagsmuni í auðlindanýtingu svæða með langtíma velferð samfélaga að leiðarljósi.
Gert er ráð fyrir að loftslagsbreytingar muni hafa meiri áhrif á norðurslóðir en nokkurt annað svæði í heiminum. Norðurskautið stendur frammi fyrir miklum áskorunum þar sem hnattvæðing og hlýnun jarðar knýr fram breytingar á ógnarhraða með tilheyrandi umbreytingum á samfélögum fólks. Þekking á alþjóðavæðingunni, staðbundnum áhrifum hennar og þróun er gríðarlega mikilvæg þegar horft er til sjálfbærrar framtíðar.
ArticHubs leiðir saman 22 aðila frá 11 ólíkum löndum á norðurslóðum, allt frá Kanada til Rússlands og eru tveir íslenskir þátttakendur í verkefninu; Háskóli Íslands (Líf- og umhverfisvísindadeild) og Háskólinn á Hólum.
Vakin er athygli á því að þann 30. nóvember n.k. verður haldin vefvinnustofa undir hatti ArcticHubs með yfirskriftinni:
Global Drivers and the Future of Key Industries in the European Arctic - Building Sustainability and Resilience Across the European Arctic
Þar verður m.a. fjallað um alþjóðlega drifkrafta, áhrif þeirra á lykilatvinnugreinar á Norðurslóðum, þar á meðal ferðaþjónustuna og framtíðarhorfur.