Arfleifð víkinganna nýtt í þágu ferðaþjónustunnar
Í byrjun þessa árs fór af stað fjölþjóðlegt samstarfsverkefni, "Destination Viking", sem styrkt er af Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins (Northern Periphery). Verkefnið snýr m.a. að því að halda til haga sögulegri arfleifð víkinganna og nýta hana í þágu ferðaþjónustunnar.
Alþjóðlegt verkefni sem stýrt er frá Íslandi
Sá hluti "Destination Viking" verkefnisins sem Ísland tekur þátt í nefnist "Saga Lands" og að því koma 18 víkingaverkefni frá sex löndum: Íslandi, Grænlandi, Færeyjum, Noregi, Skotlandi og Svíþjóð, ásamt aðilum frá Labrador, Nýfundnalandi og eyjunni Mön. Þetta er fyrsta Norðurslóðaverkefnið sem er undir stjórn Íslendinga og jafnframt stærsta Evrópuverkefni á sviði menningarferðaþjónustu sem Íslendingar taka þátt í til þessa. Byggðastofnun er í forsvari fyrir verkefnið en verkefnisstjóri er Rögnvaldur Guðmundsson hjá Rannsóknum og ráðgjöf ferðaþjónustunnar. Sex íslenskir þátttakendur eru í verkefninu: Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða með verkefni um Gísla sögu, Dalabyggð með Eiríksstaði og Leifsverkefnið, Safnahús Vesturlands með Egilsstofu, Grettistak sf. í Húnaþingi vestra, Reykjanesbær með víkingaskipið Íslending og uppsveitir Árnessýslu með verkefni um Þjórsárdal og Þjóðveldisbæinn. Verkefnið er til þriggja ára og lýkur í árslok 2005.
Gísla sögu verkefnið á Vestfjörðum
Íslensku verkefnin er mis langt komin. Gísla sögu verkefnið á Vestfjörðum er nú komið vel af stað, enda á það sér nokkurra ára sögu, að sögn Dorothee Lubecki ferðamálafulltrúi Vestfjarða. "Hugmyndin kviknaði fyrir einum 5-6 árumen þá fórum við að velta fyrir okkur að það þyrfti nauðsynlega að vinna úr þessu efni sem Gísla saga er. Fyrsta skrefið, og grunnurinn að því starfi sem nú er í gangi, var skýrsla sem byggði meistaraprófsritgerð Kerstin Bürling við Rheinische Friedrich-Wilhelms-Universität í Bonn. Kerstin hlaut styrk frá evrópska Leonardo-verkefninu til rannsóknarvinnu hjá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða frá vori og fram á haust 1999 og hafði áður unnið í hálft ár hjá Atvinnuþróunarfélaginu. Ritgerð hennar er mikill hugmyndabanki um hvernig hægt sé að tengja Gísla sögu ferðaþjónustunni og búa þannig fjölbreyttara menningarefni í hendur ferðafólki," segir Dorothee.
Ýmis verkefni í gangi
Meðal þess sem gert hefur verið í tengslum við verkefnið á yfirstandandi ári er gerð víkingafatnaðar og vinna við þróa viðburði sem ferðamenn geta tekið þátt í. Er að sögn Dorothee stefnt á að fara af stað með eitthvað slíkt næsta sumar og er þá bæði verið að hugsa um hópa og einstaklinga. Sem vísi að þessu nefnir hún einnig Dýrafjarðarhátíðina sem haldin var í sumar. Þá var ekki alls fyrir löngu stofnað áhugamannafélag um verkefnið og er formaður þess Þórhallur Arason á Þingeyri. "Eitt sem verkefnið gerir ráð fyrir er að þróuð verði söguslóð með upphaf í Önundarfirði þar sem sagan hefst. Síðan vill svo skemmtilega til að atburðir sögunnar gerast margir í nágrenni núverandi þjóðvegar þannig að hægt verður að koma fyrir skiltum meðfram honum þar sem sagan er rakin. Leiðin myndi einnig tengja suður- og norðurhluta Vestfjarða með sameiginlegum söguþræði. Þá er þróun gönguleiða á dagskránni, útgáfa korta og kynningarefnis og fleira mætti telja," segir Dorothee.
Samstarfið mikilvægt
Dorothee segir hið alþjóðlega samstarf afar mikilvægt og fólk hittist reglulega til að bera saman bækur sínar, bæði hér á landi og erlendis. "Það er t.d. mikilvægt að ekki séu allir að gera það sama heldur nái að marka sér vissa sérstöðu. Hinn sameiginlegi þráður, víkingarnir, tengja þó öll verkefnin saman. Þannig mynda eina heild sem t.d. auðveldar kynningu og markaðsstarf. Við erum að velta fyrir okkur ýmsum hlutum í því sambandi, .t.d. auglýsingum, ferðapökkum o.fl."
Fyrir áhugasama er vert að benda á vef verkefnisins.