Fara í efni

Árlegur samráðsfundur um flokkun gististaða - Samevrópskt kerfi í skoðun

Flokkunarfundur09
Flokkunarfundur09

Ísland er sem kunnugt er í samstarfi með Dönum, Svíum, Færeyingum, Grænlendingum og Eystarsaltsríkjunum um flokkun gististaða og styðjast löndin við sameiginlega flokkunarviðmið.  Samstarfsvettvangurinn ber nafnið Nordic Baltic Classification Board (NBCB) og hittast fulltrúar landanna árlega og fara yfir stöðu og þróun í málaflokknum.

Elías Bj. Gíslason, forstöðumaður upplýsinga- og þróunarsviðs Ferðamálastofu, er fulltrúi Íslands í hópnum og segir hann að nokkuð mikil hreyfing sé á þessum málum innan Evrópu þessa stundina. Nokkrar þjóðir eru farnar að horfa til samstarfs við NBCB, m.a. Þjóðverjar og Norðmenn. 

Samevrópskt kerfi í skoðun
Verið er að skoða þann möguleika innan Evrópusambandsins að setja samevrópsk flokkunarviðmið fyrir hótel og hafa hagsmunasamtök hótela og veitingastaða í Evrópu (HOTREC) verið að horfa til viðmiða NBCB í þeim efnum. En það er ekki einfalt mál að sameina alla Evrópu hvað þetta varðar því nokkur kerfi eru í gangi og jafnvel nokkur innan sama lands. Til dæmis eru 41 mismunandi kerfi við lýði á Spáni, eitt landskerfi og 40 svæðisbundin.   Forsvarsmenn HOTREC er mjög áfram um að vera leiðandi hvað heildar flokkunnar kerfi innan Evrópu varðar og  hafa sett fram 10 lágmarks kröfur til að byrja með sem hvert og eitt land eða svæðiskerfi þurfa að uppfylla. Íslenska kerfið uppfyllir öll þessi skilyrði.

Mynd. Fulltrúar ríkja sem eiga aðild að NBCB ásamt forseta HOTREC og fulltrúum frá þýskalandi og Noregi.