Auðlindin Ísland - ferðaþjónustusvæði aðgengileg á vefnum
Auðlindin Ísland - ferðaþjónustusvæði, skýrslan sem unnin var á vegum Ferðamaálráðs að beiði samgönguráðherra og kynnt á ferðamaálráðstefnunni í Stykkishólmi sl. haust, var afhent ráðherra í desember sl. Hann hefur síðan haft skýrsluna til kynningar og dreifingar og hún er nú einnig orðin aðgengileg hér á vefnum.
Sem fyrr segir var það samgönguráðherra og þar með ráðherra ferðamála, Sturla Böðvarsson, sem lét vinna skýrsluna. Hann setti fram þá hugmynd að nauðsynlegt væri að kortleggja auðlindina Ísland, meta svæðisbundið helstu vaxtarmöguleika í ferðaþjónustu og móta framtíðarsýn sem hafa mætti hliðsjón af við uppbyggingu starfsgreinarinnar á komandi árum. Skrifstofu Ferðamálaráðs var síðan falin umsá málsins. Valtýr Sigurbjarnarson, landfræðingur, var ráðinn til að annast verkefnið og sá að mestu um úrvinnslu þeirra upplýsinga sem aflað var og gerð skýrslunnar. Elías Bj. Gíslason, forstöðumaður skrifstofu Ferðamálaráðs á Akureyri, skipulagði þá fundi sem haldnir voru og hafði umsón með verkinu. Til að tryggja framgang þess var ákveðið að skoða stöðuna og leggja fram tillögur um aðgerðir til að efla ferðaþjónustu á tilteknum svæðum. Með það að markmiði að fá fram sem fjölbreyttust sjónarmið héldu þeir félagar 31 fund með heimamönnum og forsvarsmönnum ferðaþjónustufyrirtækja um allt land og eru niðurstöður þeirra funda notaðar til stuðnings við gerð skýrslunnar.
Ýmsar þarfar ábendingar komu fram
Fyrstu drög að skýrslunni voru lögð fram á ferðamálaráðstefnunni í Stykkishólmi um miðjan október sl. og var skýrslan raunar meginumfjöllunarefni ráðstefnunnar. Þá þegar komu fram ýmsar þarfar ábendingar enda var einmitt tilgangurinn að skapa umræður til frekari úrvinnslu og fá fram sem fjölbreyttust sjónarmið. Skýrslan var síðan unnin áfram með hliðsjón af þeim ábendingum er bárust á ráðstefnunni og í kjölfar hennar og síðan afhent ráðherra. Til að skoða skýrsluna er hægt að smella á myndina hér að ofan.