Aukið flugframboð og fleiri áfangastaðir
Enn berast fréttir af auknu flugframboði til og frá landinu næsta sumar. Í gær tilkynntu bæði Icelandair og Iceland Express um nýja áfangastaði og aukningu á áætlun sinni.
Iceland Express, sem til þessa hefur einbeitt sér að Evrópuflugi, hefur ákveðið að hefja á næsta ári áætlunarflug til New York í Bandaríkjunum. Áætlunin tekur gildi 1. júní næstkomandi og verður flogið fjórum sinnum í viku. Í liðinni viku tilkynnti félagið um tvo nýja áfangastaði í Evrópu, Lúxemborg og Mílanó. Þetta hefur að sjálfsögðu í för með sér aukin umsvif og fram hefur komið að félagið þurfi að bæta við sig 40 til 50 flugliðum frá og með næsta vori. Iceland Express hefur tryggt sér leigu á fimm Boeing-vélumfyrir verkefni sín.
Allt að 10% aukning hjá Icelandair
Icelandair hefur ákveðið að auka áætlunarflug sitt á næsta ári um allt að 10% og gera átak í því að fjölga ferðamönnum til landsins. Icelandair flýgur til Íslands frá 26 borgum í Evrópu og Norður-Ameríku og mun á næsta sumri fjölga vikulegum ferðum úr 140 í alls 155 á viku eða 23 ferðir daglega á háannatímanum. Þetta kemur fram í frétt frá félaginu. Icelandair bætir einni Boeing 757-farþegaþotu í áætlunarflugflotann og verður með 12 þotur í rekstri næsta sumar. Með þessari aukningu mun félagið þétta áætlun sína til margra staða og bæta við tveimur áfangastöðum, Brussel í Belgíu og Þrándheimi í Noregi.