Fara í efni

Aukin gagnasöfnun á sviði ferðaþjónustu

Perlan
Perlan

Ákveðið hefur verið að vinna að gerðs svonefnds hliðarreiknings fyrir ferðaþjónustu á Íslandi en með því er átt við víðtæka gagnasöfnun um umfang ferðaþjónustu í íslensku efnahagslífi. Samgönguráðuneytið hefur samið við Hagstofu Íslands um verkefnið og veitir til þess sjö milljónum króna. Frá þessu er  greint í frétt á vef Samgönguráðuneytisins.

Í fréttinni kemur fram að í fyrstunni er um tilraunaverkefni að ræða sem standa á fram á árið 2008 og mun reynslan skera úr um framhald málsins. Starfshópur sem Sturla Böðvarsson samgönguráðherra skipaði haustið 2005 komst að þeirri niðurstöðu að með upptöku hliðarreikninga myndi fást skýrari og betri mynd af stöðu og mikilvægi ferðaþjónustunnar sem nýtast myndi bæði stjórnvöldum og einkaaðilum til markvissari ákvörðunartöku. Eftir sem áður yrði safnað upplýsingum um fjölda erlendra ferðamanna sem til landsins koma og fjölda gistinátta.

Verkefnið er unnið á grundvelli alþjóðlegrar skilgreiningar og aðferðafræði sem Alþjóða ferðamálastofnunin og OECD hafa sett fram og er unnið eftir í fjölmörgum löndum. Með því er unnt að mæla umsvif ferðaþjónustu sem atvinnugreinar og auðveldar það samanburð við umfang ferðaþjónustu í öðrum löndum svo og samanburð ferðaþjónustu við aðrar atvinnugreinar landsmanna.

Ferðaþjónustan er ein stærsta gjaldeyrisskapandi atvinnugrein hér á landi og því mikilvægt að hafa upplýsingar um umsvif hennar eftir viðurkenndum og samanburðarhæfum alþjóðlegum stöðlum og matsaðferðum sem eru í samræmi við reiknikerfi þjóðhagsreikninga. Þá er ljóst að skýrar og greinargóðar upplýsingar sem reikningarnir munu gefa munu nýtast fyrirtækjum verulega við gerð rekstraráætlana og við mat á hugsanlegu framboði og eftirspurn í greininni.

Fyrsti áfangi verkefnisins snýst um að afmarka og skilgreina atvinnugreinar sem teljast vera ferðaþjónusta. Í næsta áfanga sem unninn verður á tímabilinu frá mars til október á þessu ári fer fram gagnaöflun og í framhaldi af því fer fram úrvinnsla gagna. Á fyrsta ársfjórðungi 2008 yrði gefin út lokaskýrsla og tillögur mótaðar um framhald verksins.