Aukin kortavelta á hvern erlendan ferðamann
Enn eitt metið var slegið í greiðslukortaveltu erlendra ferðamanna í síðasta mánuði, samkvæmt samantekt Rannsóknaseturs verslunarinnar. Aukning í erlendri greiðslukortaveltu í júlí var 31% frá sama mánuði í fyrra og velta á hvern erlendan ferðamann jókst um 4,8% á milli ára, miðað við talningar Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Mest í gistingu
Gistiþjónusta er sá liður ferðaþjónustunnar sem ferðamenn vörðu hæstum upphæðum til í mánuðinum, eða 4,7 milljörðum króna. Það er 29% hærri upphæð en í júlí í fyrra. Svipaðri upphæð, eða 4,6 milljarði kr., vörðu erlendir ferðamenn til kaupa á ferðum innanlands hjá ýmsum ferðaskipuleggjendum. Mikill vöxtur hefur verið í þeim geira ferðaþjónustunnar eða sem nemur 77% aukningu frá júlí í fyrra.
Af þeirri erlendu kortaveltu sem varið er til kaupa í verslunum fór mest til kaupa í dagvöruverslunum eða 932 millj. kr. Þá greiddu erlendir ferðamenn 763 millj. kr. til kaupa á fatnaði og 504 millj. kr. til kaupa í minjagripaverslunum.
Útgjöld íslenskra ferðamanna
Ekki eru eins miklar breytingar á milli ára í útgjöldum íslenskra ferðamanna innanlands eins og þeirra erlendu. Þannig jókst kortavelta íslenskra ferðamanna á gististöðum hérlendis um 8,8% á milli ára. Íslendingar greiddu með kortum sínum 303 milljónir fyrir gistingu í júlí sem er um 6% af erlendri kortaveltu á gististöðum. Þá greiddu Íslendingar 1,2 milljarða kr. í júlí til ferðaskipuleggjenda innanlands, sem er 5,5% aukning frá júlí í fyrra og nemur um 27% af því sem erlendir gestir vörðu til sömu þjónustu. Í júlí var greiðslukortavelta Íslendinga erlendis um 9 milljarðar kr. sem er 20% aukning frá júlí í fyrra.
Nánar á vef Rannsóknaseturs verslunarinnar