Aukin umsvif Icelandair
Flugáætlun Icelandair fyrir árið 2013 verður sú stærsta í sögu félagsins og um 15% umfangsmeiri en á þessu ári. Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að flug verður hafið til þriggja nýrra áfangastaða og ferðum er fjölgað til ýmissa borga í Bandaríkjunum og Evrópu. Alls verða áfangastaðirnir 35 á næsta ári, 10 í Norður-Ameríku og 25 í Evrópu.
Hátt í 2,3 milljónir farþega
Gert er ráð fyrir að farþegar félagsins verði hátt í 2,3 milljónir á árinu 2013, en samkvæmt áætlunum verða þeir rétt yfir 2 milljónum á árinu 2012. Alls verða 18 Boeing-757 flugvélar nýttar til áætlunarflugsins næsta sumar, tveimur fleiri en á þessu ári. Samkvæmt áætluninni verður vöxturinn meiri yfir vetrarmánuðina en yfir sumarið og er það í takt við stefnu félagsins að draga úr árstíðasveiflum í rekstrinum.
Ef umfangsmikil breyting verður á skattaumhverfi ferðaþjónustunnar á næsta ári mun félagið þurfa að breyta áherslum með því að gera ráð fyrir færri ferðamönnum til Íslands en nú er áætlað en hlutfallslega fleiri tengifarþegum milli Evrópu og Norður-Ameríku, segir í fréttinni. -HA