Fara í efni

Aukinn kostnaður og blikur á alþjóðavettvangi hindra ekki ferðaplön Evrópubúa

Aukinn kostnaður og blikur á alþjóðavettvangi hindra ekki ferðaplön Evrópubúa

Umfangsmikil greiningarvinna vegum Evrópska ferðamálaráðsins ETC getur nýst Íslendingum með ýmsum hætti. Í nýjustu greiningarskýrslu samtakanna er farið yfir niðurstöður kannana á ferðavilja Evrópubúa í sumar. Samkvæmt þeim niðurstöðum er ferðaviljinn ríkur og fleiri hyggja á ferðalög í sumar en í fyrra.

Spurt var út í tímabilið maí-október og 75% Evrópubúa áforma ferðalög tengd fríi eða afþreyingu, sem er 5% aukning miðað við fyrra ár. Ferðaviljinn er samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar ríkur meðal allra aldurshópa og þá sérstaklega þeirra eldri.

Ýmsir nefna Ísland

Vart þarf að koma á óvart að suðlægari slóðir heilla flesta þegar spurt er að því til hvaða lands innan Evrópu stefnan skuli tekin í næstu ferð. Ísland má hins vegar vel við una en 2% nefna Ísland sem næsta áfangastað, sem er álíka eða hærra en önnur Norðurlönd og mörg lönd í Mið-Evrópu. Landið virðist því sannarlega vera á kortinu hjá Evrópubúum.

Bókanir fyrr á ferðinni

Öryggi er það sem flestir setja í fyrsta sætið við val á áfangastað en hækkandi kostnaður við ferðalög eru helsta áhyggjuefnið. Því áhugavert að fólk lætur hvorki verðhækkanir né ófrið nánast við bæjardyrnar aftra ferðaplönum sínum. Samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar eru merki um að fólk sé fyrr á ferðinni að ganga frá bókunum en verið hefur, væntanlega sem svar við verðhækkunum. Þannig hefur yfir helmingur svarenda þegar gengið frá bókunum sínum að hluta eða öllu leyti.

Hvaða stafrænu tól nýtir fólk við skipulagningu ferða?

Helstu stafrænu verkfærin við skipulagningu ferða eru leitarvélar (23%), ferðavefir (21%) og kortavefir (16%). Skýrsluhöfundar benda á að þótt mikil umræða hafi verið um möguleika á nýtingu gervigreindar við ferðaskipulagningu þá nefna aðeins 4% svarenda að þeir hafi nýtt sér slík tól.

Skýrsluna í heild má nálgast á vef ETC