Ávarp samgönguráðherra við opnun Ferðatorgs 2002
Það er mér sönn ánægja að opna Ferðatorg 2002.
Ferðatorgið er lofsverð nýjung í markaðssetningu ferðaþjónustunnar innanlands. Hér er skapaður nýr vettvangur fyrir ferðaþjónustufyrirtæki af öllu landinu, til að sýna og kynna það helsta sem þau hafa upp á að bjóða, nú þegar sumarleyfistími landsmanna er á næsta leyti. Markaðssetning sem þessi, er ákaflega mikilvæg, til að þeir möguleikar sem í boði eru til ferðalaga innanlands, komi til álita sem raunhæfur valkostur þegar ákvarðanir eru teknar um það hvernig frítíma skuli varið.
Hér er á aðgengilegan hátt hægt að fá nákvæmar upplýsingar um það sem býðst í hverjum landshluta í flutningum, gistingu og afþreyingu. Fjölbreytileikinn er ótrúlegur og hægt er að fullyrða að allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi, hvar sem er á landinu. Þannig er hægt að opna augu okkar allra fyrir því, að það er alveg jafn áhugavert að ferðast um þessa stórkostlegu eyju, Íslandi, sem við byggjum eins og að ferðast um framandi lönd.
Ég bind vonir við að Ferðatorg 2002 verði árviss viðburður, sem almenningur getur hlakkað til og kannað hverju sinn þá valmöguleika sem í boði eru til ferðalaga innanlands.
Ferðatorg 2002 er lofsvert framtak Ferðamálasamtaka Íslands og Ferðamálaráðs. Er mjög við hæfi að opna Ferðatorg 2002 og hleypa jafnframt af stokkunum markaðsátaki innanlands undir slagorðinu "Ísland sækjum það heim".
Hryðjuverkin í Bandaríkjunum höfðu mikil ákhrif á ferðaþjónustu um allan heim. Hratt var brugðist við breyttum aðstæðum íslenskrar ferðaþjónustu í kjölfar. Ég beitti mér fyrir í ríkisstjórn að ákveðið var 150 milljóna króna fjárveiting, til þess að draga úr yfirvofandi samdrætti í ferðaþjónustunni.
Samkvæmt tillögu Ferðamálastjóra, sem falin var framkvæmd átaksins, var ákveðið að stórum hluta yrði varið í markaðssókn á erlendum vettvangi, aðallega í Bandaríkjunum og á okkar helstu markaðssvæðum í Evrópu. Auk þess var leitað samstarfs við nokkur íslensk fyrirtæki erlendis um kynningarstarf og voru viðtökur undantekningarlaust jákvæðar. Er það mat þeirra sem best til þekkja að umtalsverður árangur hafi náðst á síðustu mánuðum.
Til verkefnisins innanlands, hefur verið ákveðið að verja alls 45 milljónum króna. Markmiðið með innanlandsátakinu er að hvetja landsmenn til að ferðast um Ísland og upplifa það á annan hátt en tíðkast hefur. Að kynna sér þann mikla fjölbreytileika sem einkennir íslenska ferðaþjónustu allan ársins hring í formi gistingar, veitinga og ekki síst afþreyingar. Þennan fjölbreytileika og gæði þess sem er í boði, eru erlendir ferðamenn búnir að uppgötva og nýta sér í æ ríkari mæli ár frá ári.
Á hinn bóginn þykir ekki hafa tekist nægilega vel að opna augu landsmanna fyrir þessari staðreynd og því að fyrir þessa þjónustu þarf að greiða rétt eins og á erlendri grundu. Langtímaverkefnið er að fá Íslendinga til að læra að upplifa land og þjóð og ferðalög innanlands á sama hátt og þegar þeir ferðast erlendis, gefa sér meiri tíma til slökunar og afþreyingar, kynna sér umhverfi sitt og náttúru, sögu og menningu með opnum huga.
Beri átakið árangur mun það ná að vekja athygli á markbreytilegum tækifærum til að ferðast um landið, árið um kring, og skapa hlý hughrif vegna einstakra eiginleika okkar fallega lands. Þykir mér sýnt að þannig muni landsmenn upplifa ferðalag innanlands sem engu minna ævintýri en ferðalag erlendis.
Mikil gróska hefur verið í funda- og ráðstefnuhaldi hér á landi og á undanförnum árum hafa tekjur af þeirri þjónustu verið í stöðugum vexti. Sem dæmi má nefna að gera má ráð fyrir því að heildartekjur af ráðstefnugestum árið 2000 hafi verið nálægt 4 milljörðum króna þ.e. um 15% af gjaldeyristekjum greinarinnar. Eitt af því sem getur ráðið úrslitum í þróun ferðaþjónustu hér á landi er bygging ráðstefnumiðstöðvar í Reykjavík.
Í síðustu viku var undirritað samkomulag um byggingu ráðstefnu- og tónlistarhúss og hótels í hjarta borgarinnar. Sú ákvörðun verður að vera lyftistöng fyrir ferðaþjónustuna um allt land. Gera verður þá kröfu til þeirra sem byggja og reka ráðstefnumiðstöðina, að ráðstefnustarfsemi leiði til aukins ferðamannafjölda utan hins hefðbundna ferðamannatímabils, til hagsbóta fyrir íslenska ferðaþjónustu í heild.
Ísland hefur ímynd hreinleika og öryggis. Breytt ferðamynstur og áherslur í ferðalögum um allan heim hafa opnað ný tækifæri fyrir íslenska ferðaþjónustu, sem getur boðið upp á fyrsta flokks þjónustu í umhverfi sem er óspillt og laust við þá ógn sem hryðjuverk og glæpir skapa. Þá hefur orðið samstaða um að fara nýjar leiðir við markaðssetningu og skapa ný sóknarfæri, eitt dæmið um það er Ferðatorg 2002.
Ágætu gestir
Íslensk ferðaþjónusta á framtíðina fyrir sér. Ég hvet landsmenn alla til að ferðast meira um landið, gera það með opnum huga, skoða, hlusta, snerta og kynnast Íslandi eins og kynningarátakið hvetur til, það mun örugglega koma skemmtilega á óvart.
Látum okkur líða vel á ferð um landið
Ferðatorg 2002 er opnað. Góða ferð.