Avis á Íslandi fékk ,,We Try Harder" verðlaunin
Á alþjóðlegri ráðstefnu Avis bílaleigunnar sem haldin var í Suður Afríku á dögunum hlaut Avis á Íslandi "We try harder" verðlaunin fyrir árið 2002. Viðurkenningin er veitt fyrir framúrskarandi þjónustu, mesta aukningu á milli ára og nýjungar í rekstrinum.
,,We try harder" hefur verið kenniorð Avis bílaleigunnar síðast liðin 40 ár. Hún var stofnuð í Bandaríkjunum árið 1946 og er nú með 5.000 afgreiðslustaði í 173 löndum. Framkvæmdastjóri Avis á Íslandi, Þórunn Reynisdóttir, veitti verðlaununum viðtöku við hátíðlegar athöfn í Sun City hótelinu í Suður Afríku. Þá var þess minnst að Avis hefur verið á Íslandi í 15 ár.
Þórunn hefur starfað við bílaleigu í um 15 ár en tók við Avis á Íslandi haustið 1998 og undir hennar stjórn hefur fyrirtækið vaxið úr 100 bílum í tæplega 600 bíla. Að sögn Þórunnar hefur bókunar- og söludeild sem aðstoðar Íslendinga á leið til útlanda vaxið mjög hratt á síðasta ári og hefur aukningin verið yfir 100% á milli ára. Hún segist einnig vera bjartsýn á árið framundan. "Bílaleiga hefur verið vaxandi grein innan ferðaþjónustunnar á undanförnum árum og við höfum vísbendingar um að aukning fyrir sumarið 2003 verði um 15%," segir Þórunn.