Bandaríkin virða persónuvernd vegna upplýsinga um farþega frá Íslandi
Bandarísk stjórnvöld hafa lýst því yfir að þau muni beita sömu reglum um meðferð upplýsinga um farþega sem fljúga til Bandaríkjanna frá Íslandi og kveðið er á um í samkomulagi Bandaríkjanna við Evrópusambandið frá síðasta ári. Þetta kemur fram í orðsendingu sem bandaríska sendiráðið afhenti utanríkisráðuneytinu í síðasta mánuði.
Í Stiklum, vefriti viðskiptastofu utanríkisráðuneytisins, kemur fram að með þessu sé tryggt að ákveðnar reglur gilda um meðferð persónuupplýsinga um farþega sem íslensk flugfélög láta bandarískum stjórnvöldum í té í tengslum við farþegaflug til Bandaríkjanna. Í kjölfar hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin hinn 11. september 2001 hertu bandarísk yfirvöld eftirlit með komu útlendinga til landsins. Meðal annars hafa bandarísk yfirvöld krafið flugfélög, sem fljúga til Bandaríkjanna, um aðgang að upplýsingum um farþega úr farþegaskrám og bókunarkerfum þeirra. Til að bregðast við þessum hertu kröfum gerði Evrópusambandið samkomulag við Bandaríkin þar sem mælt er fyrir um hvernig staðið skuli að afhendingu slíkra upplýsinga af hálfu flugfélaga í ESB, en samkomulaginu er ætlað að uppfylla kröfur persónuverndartilskipunar Evrópusambandsins frá 1995. Samkvæmt samkomulaginu munu bandarísk yfirvöld ekki óska eftir aðgangi að viðkvæmum persónuupplýsingum úr farþegaskrám, þ.m.t. upplýsingum sem gefa vísbendingar um uppruna, kynþátt eða trúarskoðanir farþega. Þá er í samkomulaginu mælt fyrir um reglur sem bandarísk yfirvöld munu virða þegar meðferð upplýsinga um farþega, sem þeim hafa verið afhentar, fer fram. Á grundvelli samkomulagsins ákvað framkvæmdastjórn ESB að heimila afhendingu persónuupplýsinga úr farþegaskrám til bandarískra yfirvalda.
Persónuverndartilskipun ESB er hluti EES-samningsins, sem og ákvarðanir Evrópusambandsins sem heimila eða banna afhendingu persónuupplýsinga til ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins. Undanfarna mánuði hafa því staðið yfir viðræður um að taka upp í EES-samninginn þá ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB að heimila að bandarískum yfirvöldum verði afhentar upplýsingar úr farþegaskrám. Stefnt er að því að ákvörðunin verði felld undir samninginn innan skamms, segir í frétt í Stiklum.
Þar sem ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB byggir á samkomulagi Bandaríkjanna og ESB ákváðu íslensk stjórnvöld að fara þess á leit við bandarísk stjórnvöld að tryggt yrði að sömu reglur giltu um meðferð upplýsinga sem íslensk flugfélög afhenda bandarískum yfirvöldum og leiða af áðurnefndu samkomulagi. Þessi beiðni var m.a. rökstudd með vísan til þess að samkvæmt EES-samningnum gilda sömu reglur um persónuvernd hér á landi og í aðildarríkjum ESB. Af þeim sökum væri brýnt að tryggja að upplýsingar frá íslensku flugfélagi væru meðhöndlaðar á sama hátt og upplýsingar frá flugfélagi í ESB.
Bandarísk stjórnvöld hafa nú fallist á þessa beiðni íslenskra stjórnvalda. Er því eytt öllum vafa um hvaða reglur gilda um meðhöndlun bandarískra yfirvalda á þeim persónuupplýsingum sem íslensk flugfélög afenda í tengslum svið farþegaflug til Bandaríkjanna.