Bílinn allan heim - enga varahluti á hálendinu
Bílinn allan heim - enga varahluti á hálendinu, var yfirskrift á hreinsunarátaki sem Ferðamálaráð gekkst fyrir í lok ágúst og byrjun september. Átakið hófst við Húsafell og því lauk þremur vikum síðar við Mývatn en þá höfðu verið hreinsaðir um 1400 kílómetrar eða allir helstu hálendisvegir landsins.
Hugmyndin
Á hverju hausti fara fulltrúar Ferðamálaráðs vettvangsferð til þess að skoða þá staði þar sem FMR hefur staðið fyrir framkvæmdum á fjölsóttum ferðamannastöðum. Hjalti Finnsson umhverfisfulltrúi og ég vorum að keyra yfir Kjöl og þótti okkur fullmikið af varahlutum á víð og dreif á leiðinni. Við tókum eins mikið með og við gátum en urðum því miður að skilja mikið eftir, sagði Elías Bj. Gíslason hjá
Ferðamálaráði um tildrög þess að hugmyndin að hreinsunarátaki á hálendinu kviknaði.
Í vetur og vor var síðan unnið að því að fá samstarfsaðila en verkefni sem þetta er töluvert kostnaðarsamt. Þeir aðilar sem tóku þátt í verkefninu með FMR voru Europcar, eða Bílaleiga Akureyrar, sem skaffaði kerru, Hekla hf. útvegaði Galloper jeppa, Olís sá um olíur og rekstaravörur á bílnum,VÍS eftirlét tryggingar og auglýsingastofan Stíll sá um að merkja kerru og bíl. Ferðamálaráð þakkar fyrrnefndum aðilum fyrir þeirra þátt í verkefninu.
Framkvæmd
Eins og áður sagði var farið yfir um 1400 kílómetra vegalengd eða nánast alla vegi sem Vegagerðin merkir sem F-vegi. Landinu var skipt upp í þrjú svæði, þ.e. vestur-, mið- og austursvæði. Þrír starfsmenn Ferðamálaráðs skiptu með sér að aka bílnum og stjórna verkinu. Þá voru ráðnir tveir vaskir sveinar, þeir Styrmir Hauksson og Þorgeir Finnsson sem höfðu það verk með höndum að tína það
sem fannst upp á kerruna.
Árangur
Það voru ótrúlegustu hlutir sem fundust. Mikið var um pústkerfi, jafnvel undan rútum og flutningabílum, mikið var um dekk og dekkjadræsur og jafnvel dekk á felgum. Þá fundust rafgeymar, bílrúður, gormar og demparar. Sem sagt allir helstu varahlutir sem fylgja bílum. Þegar upp var staðið þá taldi þetta níu kerrur eða um 15 rúmmetra af varahlutum. Meðan á hreinsuninni stóð var mikið um að vegfarendur stoppuðu og gáfu sig á tal við hópinn og tjáðu jákvæða skoðun sína á átakinu.
Framhald
Þegar verkefni sem þessu er lokið þá spyrja menn sig hvort framhald verði á og þá hvernig? Eitt af því gæti verið að fara eftir þjóðvegi númer 1 og hreinsa það sem þar er og jafnvel mætti fara víðar. Því eins og margoft hefur komið fram í könnunum bæði Ferðamálaráðs og annarra, þá er það náttúra landsins fyrst og fremst sem hefur mest áhrif á gesti okkar og þeirra upplifun af heimsókn til landsins. Það hlýtur því alltaf að vera hagur okkar sem í ferðaþjónustu störfum að verkefni sem þetta sé í gangi.
Er þarna komin samstarfsvettvangur ríkis, ferðaþjónustufyrirtækja og sveitafélaga?