Blikur í efnahagsmálum móta ferðaplön Evrópubúa næstu mánuði
Heldur færri Evrópubúar áforma ferðalög næstu mánuði miðað við sama tíma í fyrra, meira er spáð í hvað hlutirnir kosta og aukinn áhugi er á að ferðast utan háannar. Þannig virðist sem efnahagsástandið sé farið að hafa nokkur áhrif á ferðaplön fólks það sem eftir lifir ársins og fyrstu mánuði næsta árs. Eftir sem áður áforma yfir 70% aðspurðra annað hvort að viðhalda eða auka við þá fjármuni sem þeir setja í ferðalög.
Þetta er meðal áhugaverðra niðurstaðna úr nýjustu könnun Ferðamálaráðs Evrópu (ETC), sem vaktar ferðahegðun og ferðaáform í álfunni með reglubundnum hætti. Könnunin tók til íbúa Mið- og Suður-Evrópu og Bretlands.
Tveir þriðju á faraldsfæti næstu mánuði
Könnunin leiðir í ljós að 68% aðspurðra áforma ferðalög á tímabilinu október 2023 fram í mars 2024, sem er um 2% samdráttur frá fyrra ári. Mestur er ferðaviljinn í Suður-Evrópu (75%), á Bretlandi og í Póllandi. Frí eða heimsókn til vina og ættingja er sem fyrr það sem flestir nefna. Greina má aukningu í viðskiptatengdum ferðalögum en 8% nefna þann valkost.
Vilja njóta þrátt fyrir fjárhagsáhyggjur
Hækkandi ferðakostnaður og þrengingar í efnahagsástandi eru vaxandi áhyggjuefni. Þannig nefndu 22% verðhækkanir sem sitt helsta áhyggjuefni í tengslum við ferðalög og 16% höfðu áhyggjur af fjárhagsástandinu almennt. Sem viðbrögð við þessu má sjá að fólk lengur mikla áherslu á skipuleggja ferðalög sín með sem hagkvæmustum hætti og fá þannig sem mest fyrir peninginn. Í þessu sambandi nefndu 22% ferðalög utan háannar, 13% vilja skoða ódýrari áfangastaði en áður og önnur 13% hyggjast nýta sér að bóka snemma. Þegar könnunin var gerð höfðu um 22% svarenda gengið frá fyrirhugaðri ferð að öllu leyti en 23% að hluta, sem ETC segir benda til að fólk sé að horfa í einhverju mæli til þess að nýta sér góð tilboð á síðustu stundu.
Margir virðast telja nauðsynlegt að halda fastar utan um budduna en áður. Þannig áforma 17% að draga úr innkaupum meðan á ferð stendur, 15% segjast ætla að eyða minna í gistingu og veitingar og 12% ætla að nýta sér almenningssamgöngur eða hjólaleigur.
En þrátt fyrir þessar fjárhagslegu áhyggjur hafa Evrópubúar enn mikinn ferðavilja og 71% ætlar að viðhalda eða auka við þá fjármuni sem þeir setja venjulega í ferðalög. Yfir helmingur (54%) áformar fleiri en eina ferð og mun fleiri en áður áforma að verja meira en 1.500 evrum (220 þús ISK) í hverja ferð.
Veður gegnir lykilhlutverki í ferðaplönum
Gjarnan er sagt að veðrið stjórni ferðalögum Íslendinga en það virðist eiga við um fleiri því gott verður er sem fyrr það atriði sem flestir nefna sem mikilvægasta þáttinn þegar áfangastaður er valinn. Á sama tíma má greina vaxandi áhyggjur af öfgum í veðurfari.
50% ætla að fljúga
Áhyggjur af umhverfismálum virðast að einhverju leyti smitast út í val fólks á ferðamáta. Þó að flug sé áfram helsti kosturinn hjá helmingi þeirra sem tóku þátt í könnuninni, þá kýs vaxandi fjöldi Evrópubúa vistvænni ferðamáta. 17% ferðamanna ætla að taka lest eða rútu í næstu ferð, sem er 5% aukning frá árinu áður. Á sama tíma hefur ferðamönnum sem hyggjast keyra í fríinu sínu fækkað um 7%.