Boð um þátttöku á JATA ferðasýningunni í Japan
Ferðamálastofa stendur fyrir þátttöku íslenskra ferðaþjónustuaðila í JATA sýningunni í Japan í haust, í samstarfi við Útflutningsráð Íslands.
Sýningin er ein af þeim áhrifameiri í Asíu og hana heimsóttu á síðasta ári um 110 þúsund gestir, en þar af voru tæplega 40 þúsund fulltrúar ferðaþjónustuaðila og fjölmiðla. Sýnendur voru 763 frá 136 löndum og /eða svæðum.
Sýningin sjálf er í Tokyo 18. ? 20. september og er fyrsti dagurinn einungis fyrir viðskiptaaðila en almenningur hefur aðgang á seinni tveimur dögunum. Daginn áður (þann 17.9.) er haldin ráðstefna um ferðamál (JATA World Tourism Congress) og fjallar um tiltekið þema á hverju ári. Nánari upplýsingar má nálgast á vefsvæði sýningarinnar www.jata-wtf.com/
Verið er að vinna að kostnaðaráætlun vegna þátttöku Íslands. Því biðjum við þá íslensku ferðaþjónustuaðila sem áhuga hafa á að taka þátt í sýningunni 2009 eða vilja fá frekari upplýsingar um að senda okkur póst þess efnis á info@icetourist.is fyrir 5. maí næstkomandi . Einnig má hafa samband við Jón Gunnar Borgþórsson, forstöðumann markaðssviðs í síma 535 5500.