Breyting á reglum um bókhald og reikningsskil ferðaskrifstofa
Í dag, 1. desember, taka gildi breytingar sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið gerði á reglunum um bókhald og reikningsskil ferðaskrifstofa nr. 1100/2005. Breytingarnar felast í því að felld hefur verið úr gildi heimild ferðaskrifstofa til að draga áætlunarflug frá tekjum við sölu alferða við útreikning á tryggingarfjárhæð. Allt flug ber því að taka með í útreikning á tryggingarfjárhæð. Ástæða breytinganna er vegna aukinnar neytendaverndar og til samræmis við það sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum.
Lengri frestur til að skila gögnum
Í ljósi þess er ferðaskrifstofum veittur frestur til 4. janúar nk. til að skila inn gögnum vegna árlegrar endurskoðunar á fjárhæð tryggingarinnar. Ferðamálastofa tekur síðan ákvörðun á grundvelli framlagðra gagna hvort þörf sé á breytingu á fyrirliggjandi tryggingarfjárhæð og til þess er henni heimilt að óska eftir umsögn löggilts endurskoðanda.
Hvaða gögnum skal skila
Þau gögn sem skila skal inn skv. lögum nr. 73/2005 og reglum 1100/2005 eru:
- Áritaður ársreikningur fyrir árið 2014 skv. lögum nr. 3/2006 um ársreikninga. Ársreikningurinn skal vera undirritaður af framkvæmdastjóra, stjórn félags og endurskoðanda eða skoðunarmanni félags.
- Yfirlit yfir mánaðarlega veltu ársins 2014, skipt niður á mánuði, þar sem áætluð velta vegna sölu alferða er sérgreind. Yfirlitið skal staðfest af löggiltum endurskoðanda.
- Yfirlit yfir áætlaðar mánaðarlegar rekstrartekjur ársins 2015 skipt niður á mánuði, þar sem áætluð velta vegna sölu alferða er sérgreind.
- Staðfesting löggilts endurskoðanda á að bókhaldskerfi ferðaskrifstofu sé í samræmi við reglur um bókhald og reikningsskil ferðaskrifstofa nr. 1100/2005.
Nánari upplýsingar eru hér á vefnum undir liðnum Árleg skil ferðaskrifstofa. Þar má m.a. finna:
- Reglur nr. 1100/2005 um bókhald og reikningsskil ferðaskrifstofa með breytingunum sem taka gildi 1. desember
- Nýtt form vegna árlegra skila sbr. liði 2-4 hér að ofan.
Vakin er athygli á að berist eldra form árlegra skila frá og með 1. desember nk. mun sérgreint áætlunarflug verða tekið með í útreikninginn á tryggingarfjárhæðinni.
Vakin er athygli á því að skv. 3. mgr. 21. gr. laga nr. 73/2005 um skipan ferðamála er Ferðamálastofu heimilt að fella niður leyfi ef ofangreind gögn vegna endurskoðunar á fjárhæð trygginga eru ekki lögð fram innan lögbundins tímafrests.
Nánari upplýsingar veitir Helena Karlsdóttir, forstöðumaður stjórnsýslu- og umhverfissviðs, í síma: 535-5500 eða á helena@ferdamalastofa.is.