Breytingar á ferðaþjónustuhluta FL Group
Breytingar eru enn á döfinni á ferðaþjónustuhluta FL Group. Félög sem áður höfðu verið gerð að sérstökum rekstrareiningum verða sameinuð undir merkjum Icelandair Group og félagið skráð í Kauphöll Íslands.
Í október síðastliðnum var tilkynnt um miklar breytingar þar sem ferðaþjónustuhluta Fl Group var skipt upp í fjögur félög, þ.e. Icelandair Group, FL Travel Group, fraktflutninga og Sterling. Síðan þetta var hafa hafa nokkrar rekstrareiningar verið seldar, nú síðast bílaleigan Herts til Magnúsar Kristinssonar. Þá eru Kynnisferðir einnig í söluferli. Nú er boðað að félögin fjögur að Sterling undanskyldu verði sameinuð undir merkjum Icelandair Group og það skráð í Kauphöll Íslands.
Icelandair Group mun því eftir þessar skipulagsbreytingar verða samstæða félaganna Icelandair, Icelandair Cargo, Loftleiða Icelandic, Icelandair Technical Services (ITS), Icelandair Ground Services (IGS), Bláfugls, Flugflutninga, Fjárvakurs, Flugfélags Íslands, Icelandair Hotels og Íslandsferða. FL Group hyggst áfram verða kjölfestueigandi í Icelandair Group eftir skráningu í Kauphöllina. Stefnt er að því að útfærsla á söluferlinu og skráningu Icelandair Group liggi fyrir á vormánuðum.