Fara í efni

Breytingar á skipan Stjórnarráðsins

innanlandskönnun5
innanlandskönnun5

Ákveðið hefur verið að áður boðaðar breytingar á skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands taki gildi í byrjun september næstkomandi og þá hefur Steingrímur J Sigfússon nú tekið við iðnaðarráðuneytinu.

Þann 4. september taka til starfa atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti og koma þau í stað iðnaðarráðuneytis, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis, umhverfisráðuneytis, efnahags- og viðskiptaráðuneytis og fjármálaráðuneytis. Þetta kemur fram í Stjórnartíðindum. Jafnframt hefur Steingrími J. Sigfússyni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra, verið falið að undirbúa stofnun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, Oddnýju G. Harðardóttur fjármálaráðherra hefur verið falið að undirbúa stofnun fjármála- og efnahagsráðuneytis og Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra hefur verið falið að undirbúa stofnun umhverfis- og auðlindaráðuneytis.

Í Stjórnartíðindum kemur einnig fram að frá og með 6. júlí 2012 skuli Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra, fara með iðnaðarráðuneytið, í stað Oddnýjar G. Harðardóttur, fjármálaráðherra, um stundarsakir, í fjarveru Katrínar Júlíusdóttur, iðnaðarráðherra, vegna fæðingarorlofs hennar, eða þar til annað verður ákveðið. Steingrímur J. Sigfússon er þar með ráðherra ferðamála í fjarveru Katrínar Júlíusdóttur. Þetta er í annað sinn sem Steingrímur J. hefur ferðamálin á sinni könnu en þau heyrðu undir samgönguráðuneytið í ráðherratíð hans þar á árunum 1988 til 1991.