Breytingar á starfsemi Ferðamálaráð Íslands í Evrópu
-verkefni skrifstofunnar í París flutt til Frankfurt
-skrifstofa opnuð í Kaupmannahöfn á næsta ári
Undanfarin tvö ár hefur Ferðamálaráð rekið skrifstofu í París en í dag, 15. maí, verður sú breyting að starfsemi hennar færist til skrifstofu Ferðamálaráðs Íslands í Frankfurt. Er þetta í samræmi við samþykkt Ferðamálaráðs frá því sl. haust þar sem gert er ráð fyrir að erlend starfsemi á næstu misserum verði byggð upp á þremur meginskrifstofum, auk starfseminnar á Íslandi. Skrifstofan í New York sinnir þannig N.- Ameríku og skrifstofan í Frankfurt sinnir meginlandi Evrópu. Að auki er stefnt að opnun skrifstofu í Kaupmannahöfn á árinu 2003 og mun hún sinna Norðurlöndunum. Frá síðustu áramótum hefur síðan Bretlandsmarkaði verið sinnt frá skrifstofunni í Reykjavík.
Þessu fylgja jafnframt breytingar á starfsmannahaldi. Guðrún Kristinsdóttir, sem verið hefur forstöðumaður skrifstofunnar í París frá upphafi, lætur af störfum í lok þessa mánaðar. Á skrifstofuna í Frankfurt hefur verið ráðinn franskur starfsmaður, Mario Noellee ADAM, til að sinna frönskumælandi hluta Evrópu.