Breytingar um áramót á framkvæmd verktakasamnings
Frá og með áramótum verður sú breyting gerð að framkvæmd samnings Ráðstefnuskrifstofu Íslands (RSÍ) og Ferðamálaráðs verður á markaðssviði Ferðamálaráðs en ekki á stjórnsýslusviði.
Aukið færi á að vinna með sérfræðingum Ferðamálaráðs erlendis
Með þeir breytingu sem nú verður gerð gefst aukið færi á að vinna að málefnum RSÍ með sérfræðingum Ferðamálaráðs á skrifstofum ráðsins erlendis. Þetta mun einnig geta orðið til þess að Ferðamálaráð tekur aukinn beinan þátt í kostnaðarsömum verkefnum. Dæmi um þetta er framkvæmd á sýningu í Chicago á vegum RSÍ í september sl., framkvæmd verkefnisins Jahrmarkt Road Show til 3ja borga í Þýskalandi nú í nóvember sl. og framkvæmd verkefnis í Danmörku í nóvember sl. Öll þrjú verkefnin voru unnin af starfsmönnum Ferðamálaráðs á mörkuðunum erlendis og spöruðu RSÍ að senda starfsmann á staðinn.
Verkefnin framundan
Nýlega samþykkti RSÍ nýja verkefnaáætlun fyrir árið 2005. Sú verkefnaáætlun sem samþykkt var á Haustfundi hefur tekið nokkrum breytingum frá fyrri árum. Einkum er um að ræða að skerpa áherslur á meginmarkaði, þ.e heimamarkað (gestgjafar) og erlenda markaði. Er þar þegar gert ráð fyrir nánari samvinnu við skrifstofur Ferðamálaráðs, Icelandair, Höfuðborgarstofu og sendiráð Íslands.
Nýr verkefnastjóri
Stjórn Ráðstefnuskrifstofu Íslands fundaði í gær, 14. desember, og á dagskrá var greinargerð um áframhaldandi þjónustu Ferðamálaráðs samkvæmt verktakasamningi. Magnús Oddsson, ferðamálastjóri gerði grein fyrir nýjum starfsmanni sem var samþykktur einróma af stjórn.
Frá 1. janúar 2005 tekur nýr verkefnastjóri við störfum á RSÍ. Hinn nýi starfsmaður heitir Anna Róslaug Valdimarsdóttir. Anna er 31 árs, stúdent frá Verslunarskóla Íslands. B.A í sagnfræði frá HÍ. og M.Sc. í ferðamálafræði frá University of Strathclyde, Glasgow frá 2001. Lokaritgerð: Images in the Promotion of Iceland: A case study of Iceland promotion for the UK market."
Anna hefur starfað hjá Ferðamálaráði síðan í september sl. og hefur sýnt bæði frumkvæði og dugnað í starfi. Anna mun strax hafa í nógu að snúast og hefur hún m.a lýst því yfir við stjórn RSÍ að hún muni heimsækja aðildarfélaga sem fyrst í því skyni að afla sér þekkingar á starfsemi aðildarfélaga. Ársæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálaráðs, sinnir verkefnum Ráðstefnuskrifstofunnar fram til 1. janúar og mun jafnframt setja nýjan starfsmann inn í helstu þætti verkefnanna framundan.
Að baki Ráðstefnuskrifstofu Íslands standa Ferðamálaráð Íslands, Reykjavíkurborg, Flugleiðir og flest leiðandi hótel á sviði ráðstefnuhalds og hvataferða auk annarra fyrirtækja, s.s. afþreyingarfyrirtækja, veitingahúsa og fleiri sem eiga hagsmuna að gæta af ráðstefnuhaldi og móttöku hvataferða. Frá því haustið 1997 hefur starfsemi RSÍ verið hýst hjá Ferðamálaráði sem jafnframt hefur séð um rekstur hennar samkvæmt samkomulagi við stjórn skrifstofunnar.