Danska Ferðamálaráðið fræðist um markaðssetningu á Íslandi
Í síðustu viku heimsóttu Ferðamálastofu hópur fólks frá Ferðamálaráði Danmerkur, eða Visit-Denmark eins og stofnunin nefnist út á við. Tilgangur ferðar þeirra til Íslands var að fræðast um markaðsstarfsemi Ferðamálastofu, einkum vegna markaðssetningar Ferðamálastofu á erlendum mörkuðum.
Árangur Íslands vekur athygli
?Það fer ekki hjá því að sá árangur sem náðst hefur í markaðssetningu á Íslandi sem ferðamannalandi hefur vakið verðskuldaða athygli víða. Hjá okkur hefur verið veruleg fjölgun ferðamanna og aukning á öllum sviðum ferðaþjónustu á sama tíma og margar nágrannaþjóðir okkar hafa mátt sætta sig við að halda í horfinu eða jafnvel horft upp á samdrátt. Danir voru því forvitnir að vita hvaða aðferðum við værum að beita sem virkuðu svo vel;? sagði Ársæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálastofu. Að sögn hinna dönsku gesta hefur verið á brattann að sækja fyrir Dani í markaðssetningu landsins. Þeir greindu frá því að nokkur samdráttur hafi átt sér stað frá flestum meginmörkuðum, þar á meðal frá Þýskalandi, Noregi og Svíþjóð. Eini vöxturinn undanfarið hefur verið frá Asíu og svo innanlandsmarkaðurinn.
Farið yfir helstu verkefni
Ársæll Harðarson fór yfir stefnumörkun og aðferðafræði stjórnvalda og atvinnugreinarinnar á erlendum mörkuðum svo og að greina frá ýmsum samstarfsverkefnum sem unnin eru í samstarfi milli fyrirtækjanna og stjórnvalda. Sérstaka athygli vakti verkefnið Iceland Naturally, sem Danir hafa orðið varir við á Bandaríkjamarkaði, en þar er um að ræða samstarf Samgönguráðuneytis, Utanríkisráðuneytis og einstakara fyrirtækja og ekki eingöngu fyrirtækja í ferðaþjónustu. Iceland Naturally er um þessar mundir að hefjast á Evrópumarkaði. Þá var ennfremur gerð grein fyrir samstarfi um Ráðstefnuskrifstofu Íslands og verkefnum tengdum byggingu ráðstefnu- og tónlistarhúss í Reykjavik, auk Cruise Iceland verkefnisns. Að sögn Ársæls vakti það einnig athygli Dana að Ferðamálastofa hefur varið miklum upphæðum á undanförnum árum í aðstoð við heimamenn á fjölförnum ferðamannastöðum til úrbóta á aðgengi og aðstöðu.
Heimsókna danska ferðamálaráðsins kemur í kjölfar nýlegrar heimsóknar norska ferðamálaráðsins um sama efni. Meðfylgjandi mynd var tekin í heimsókn danska ferðamálaráðsins.