Efnahagsástandið hefur áhrif á ferðaplön Evrópubúa
Hlutfall Evrópubúa sem hyggur á ferðalög á tímabilinu júní til nóvember 2023 dregst saman um 4% miðað við síðasta ár, eða úr 73% í 69%. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá Evrópska ferðamálaráðinu – ETC, sem vaktar ferðaáform Evrópubúa.
Austurríkismenn, Svisslendingar og Þjóðverjar skera sig úr sem þær þjóðir sem síst hyggja á ferðalög en á bilinu 45%-62% þeirra eru með ferðaáætlanir á næstu mánuðum. Aftur á móti eru Frakkar (80%), Belgar (79%) og Bretar (75%) áhugasamir um að ferðast á sama tímabili.
Þótt áhrifa Covid kunni enn að gæta þegar kemur að ferðavilja fólks þá segir ETC margt benda til þess að staða efnahagsmála hafi einnig talsverð áhrif, s.s. áhyggjur af verðbólgu og persónulegum fjármálum.
Vilja ferðalög utan háannar og hagkvæmari áfangastaði
Engu að síður eru Evrópubúar enn áhugasamir um að ferðast á næstu mánuðum. Margir eru að leita að öðruvísi ferðamöguleikum en verið hefur, leita að hagkvæmari upplifunum eða íhuga ferðalög utan háannar til að nýta fjármuni sína betur. ETC bendir á að í þessu gætu falist tækifæri og hvetur ferðaþjónustufyrirtæki til að nýta þessa þróun og aðstoða ferðafólk við að fara ótroðnar slóðir og ferðast á þeim árstíma sem minna hefur verið að gera.
Þegar rýnt er nánar í tölurnar þá stefna 17% að því að ferðast utan háannar til að fá betra verð og 14% ætla í frí á áfangastaði sem þeir telja hagkvæmari. Þeir leita einnig eftir ódýrari flugfargjöldum, en 13% stefna að því að bóka flug fyrr en venjulega til að fá besta verðið og 12% ætla að fljúga með lággjaldaflugfélögum.
Þrengri fjárráð skipta einnig máli varðandi ferðahegðun þegar komið er á áfangastað. 17% munu draga úr verslunarkostnaði, 15% munu leita að ódýrari veitingastöðum og 15% munu velja ódýrari gististaði.
Aðrir þættir sem valda áhyggjum eru yfirstandandi stríð Rússa í Úkraínu (12%), yfirfullir ferðamannastaðir (9%), bókunar- og afbókunarreglur (9%) og mögulegar öfgar í veðurfari (8%).
Ferðalög innan Evrópu áfram fyrsti kostur
Evrópa er áfram fyrsti kostur svarenda, þar sem 59% ætla að fara í frí innan álfunnar en 12% stefna að því að fara út fyrir Evrópu (3% aukning frá 2022). Á sama tíma hafa vinsældir ferða innanlands dregist saman um 6%, þar sem aðeins 26% ferðamanna nefna þann kost.
Spánn er áfram vinsælasti áfangastaður ferðalanga en 8% skipuleggja frí þar, næst á eftir Frakklandi (7%), Ítalíu (7%), Grikklandi (5%) og Króatíu (5%). Þó eru áfangastaðir við Miðjarðarhafið að sjá 10% fækkun gesta sem stefna að því að ferðast þangað frá síðasta ári. Á móti koma auknar vinsældir áfangastaða eins og Tékklands, Búlgaríu, Írlands og Danmerkur. Þetta rekur ETC til áhuga fólks á áfangastöðum með færra ferðafólki og og mildara hitastigi.
Viðburða- og viðskiptaferðir taka aftur við sér
Þrátt fyrir hækkandi framfærslukostnað eru evrópskir ferðalangar að skipuleggja margar ferðir, en 33% ætla að ferðast tvisvar og 26% að minnsta kosti þrisvar í sumar og haust. Önnur 30% svarenda eru að hugsa um að fara aðeins í eina ferð (4% lægra en í fyrra). Miðað við tímalengd kjósa flestir evrópskir ferðamenn (36%) að dvelja minna en viku (fjórar-sex nætur) á áfangastað, en 27% stefna að því að dvelja sjö-níu nætur.
Áhugi á að sækja tiltekna viðburði nýtur vaxandi vinsælda, en 10% Evrópubúa stefna á slíkt ferðalag á tímabilinu júní til nóvember 2023 en var aðeins 4% árið 2022. Að auki hefur verið 4% aukning í viðskiptaferðum, þar sem 9 % svarenda áforma í vinnutengda ferð. Þrátt fyrir 6% samdrátt frá sama tímabili árið 2022 eru ferðalög tengd fríi og tómstundum sem fyrr það sem algengast er, eða í 68% tilfella.