Fara í efni

Efnahagsleg áhrif ferðaþjónustu á Húsavík - Tilkoma hvalaskoðunar

Hvalamynd
Hvalamynd

Á morgun verður kynnt skýrsla sem unnin var síðastliðið sumar þar sem mat er lagt á mikilvægi ferðaþjónustu fyrir Húsavík, með áherslu á hvalaskoðun og reiknuð út óbein margfeldisáhrif.

Skýrsluna unnu Rannveig Guðmundsdóttir og Andri Valur Ívarsson hjá Þekkingarsetri Þingeyinga og var hún styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna. Kynningin fer fram á morgunverðarfundi á morgun, föstudaginn 13. febrúar, frá kl. 10:00-12:00. Fundurinn verður haldinn hjá Endurmenntun Háskóla Íslands við Dunhaga og er öllum opinn.

Áætluð heildarvelta vegna hvalaskoðunarferðamanna tæpar 650 milljónir
Alls fengust 520 svör úr könnununni og í svörum ferðamanna kemur meðal annars fram að 78% allra ferðamanna á Húsavík fóru í hvalaskoðun, en það samsvarar 40% allra þeirra ferðamanna sem fóru í hvalaskoðun við Ísland árið 2007. Áætla má að tekjur vegna sölu á farmiðum í hvalaskoðun á Húsavík árið 2007 hafi numið um 129 milljónum kr. sé miðað við 41 þúsund gesti í hvalaskoðun. Útgjöld ferðamanna sem fóru í hvalaskoðun voru að jafnaði rúmar 13 þúsund krónur á dag, en marktækur munur var á útgjöldum ferðamanna eftir því hvort þeir fóru í hvalaskoðun eða ekki. Afþreying er stærsti útgjaldaliður ferðmanna á Húsavík. Áætluð heildarvelta vegna hvalaskoðunarferðamanna er því tæpar 650 milljónir árið 2008.

Ferðin skipulögð fyrirfram
Alls sögðust 63% gesta hafa ákveðið að fara í hvalaskoðun frá Húsavík áður en komið var til landsins, en 26% ákváðu það á ferð sinni um Ísland. Í flestum tilvikum eru það ferðamenn frá Mið-Evrópu, Suður-Evrópu og Bretlandseyjum sem skipulagt hafa hvalaskoðun frá Húsavík áður en ferðast er til landsins, en fólk frá þessum löndum er jafnframt fjölmennasti hópur hvalaskoðunargesta á Húsavík.

31 starf á ársgrundvelli
Fram kemur í skýrslunni að alls voru um 47 stöðugildi hjá hvalaskoðunarfyrirtækjum og Hvalasafninu yfir ferðamannatímann 2007 eða ígildi tæplega 20 starfa á ársgrundvelli. Því til viðbótar voru 11 manns í fullu starfi allt árið um kring og heildarstarfsígildi á ársgrundvelli því 31 starf.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér á vefnum í gagnabanka yfir útgefið efni. Myndin er fengin á vef Norðursiglingar á Húsavík.

Efnahagsleg áhrif ferðaþjónustu á Húsavík - Tilkoma hvalaskoðunar