Endurbættur bæklingur um öryggi á ferðalögum
Slysavarnafélagið Landsbjörg í samvinnu við Vegagerðina, Umhverfisstofnun og Umhverfisstofu gáfu í vor út endurbætta útgáfu af bæklingi um akstur og fleira er lýtur að öryggi á ferðalögum á Íslandi.
Bæklingurinn, sem á ensku nefnist "Have a safe journey", er prentaður á þremur tungumálum og er hann hugsaður fyrir ferðamenn sem hingað koma erlendis frá. Honum er m.a. dreift hjá bílaleigum sem koma honum áfram til ferðamanna sem taka bíl á leigu. Bæklingurinn er jafnframt aðgengilegur á Netinu og þar er hann á sex tungumálum, þ.e. ensku, þýsku, norsku, frönsku, ítölsku og spænsku.
Meðal þess sem farið er yfir í bæklingnum er mikilvægi þess að vanda undirbúning fyrir ferðalög um landið, bennt er á síbreytileika íslensks veðurfars og farið er yfir ýmsar einfaldar öryggisreglur sem þó getur skipt sköpum að sé fylgt. Akstur og öryggisreglur sem honum tengjast fá góða umfjöllun og sérstaklega er farið yfir akstur á hálendinu. Einnig er komið inn á öryggisatriði í sambandi við gönguferðir, jöklaferðir og þegar fólk ferðast á reiðhjóli eða hestbaki. Þá er farið yfir helstu umferðarmerki og birtur listi yfir þjónustuskilti, svo nokkuð sé nefnt. Bæklingurinn er sem fyrr segir aðgengilegur á Netinu á sex tungumálum, m.a. á vef Landsbjargar.