Endurmati á fjárhæðum trygginga og iðgjalds ferðaskrifstofa er lokið
Ferðamálastofa hefur lokið endurmati á fjárhæðum iðgjalds og trygginga ferðaskrifstofa og ættu ákvarðanir þess efnis að hafa borist ferðaskrifstofum í tölvupósti.
Við ákvörðun um fjárhæð trygginga ber Ferðamálastofu að taka mið af fjárhagsstöðu og áhættu af rekstri ferðaskrifstofa. Eins og á síðasta ári beitir Ferðamálastofa hækkunarheimild 10. gr. reglugerðar um Ferðatryggingasjóð nr. 812/2 2021 og krefst hærri trygginga en leiðir af reiknireglum 7. gr. reglugerðarinnar þegar telja má að sérstök áhætta sé af rekstri ferðaskrifstofa.
Við hækkun trygginga er gætt jafnræðis við ákvarðanatöku og horft er til sömu sjónarmiða í öllum tilfellum. Þær ferðaskrifstofur sem sæta munu hækkunum eru þær sem hafa veltufjárhlutfall 1,5 og lægra og/eða hlutfall eigin fjár er 20% eða lægra skv. ársreikningi 2021. Einnig kemur til hækkana tryggingafjárhæða séu inneignir fyrir hendi sem ekki koma til afhendingar á þessu ári. Séu hlutföll veltufjár og eigin fjár undir ofangreindum mörkum bætist við álag á útreiknaða tryggingafjárhæð. Séu inneignir fyrir hendi, sem ferðamenn eiga inni vegna greiddra pakkaferða eða samtengdrar ferðatilhögunar og ekki eru afhentar á þessu ári, bætist fjárhæð inneignanna óbreytt við reiknaða tryggingafjárhæð. Nánari upplýsingar má finna á vef Ferðamálastofu, sjá hér.
Tryggingafjárhæðir eru alfarið metnar út frá framlögðum gögnum ferðaskrifstofa. Því er mikilvægt að framlagðar upplýsingar séu réttar svo að fjárhæðir trygginga séu ákvarðaðar á réttum forsendum.
Greiðsla iðgjalda í Ferðatryggingasjóð
Ferðamálastofa vekur athygli á ekki verða gefnar út sérstakar kvittanir fyrir greiðslu iðgjalds í Ferðatryggingasjóð en bendir á að hægt er að prenta út kvittun fyrir greiðslunni í netbanka ferðaskrifstofunnar sem fylgiskjal í bókhaldi. Einnig er möguleiki á að prenta út iðgjaldsákvörðunina og láta fylgja með.
Endurmat tryggingaútreikninga og réttmæti gagna
Að lokun endumatsferli fjárhæða trygginga og iðgjalds mun Ferðamálastofa hefja eftirlit með réttmæti framlagðra gagna og upplýsinga sem lágu til grundvallar endurmati tryggingaútreikninga.
Samhliða þessu eftirliti, sem m.a. mun felast í vettvangsheimsóknum, hefur stofnunin hug á að nota tækifærið til að fræðast nánar um ýmsar áskoranir í starfsemi ferðaskrifstofa s.s. með tilliti til umfangs og utanumhalds pakkaferða, samskipta við erlenda viðskiptaaðila eða smásala, hvaða bókhalds- og bókunarkerfi þykja henta best í því samhengi, og önnur þau atriði sem varða verksvið stofnunarinnar á sviði leyfisskyldu og trygginga.