Enn met í fjölda ferðamanna
Erlendir ferðamenn hafa aldrei verið jafnmargir í marsmánuði og í ár en samkvæmt talningum Ferðamálastofu fóru 33.600 erlendir ferðamenn frá landinu í nýliðnum marsmánuði eða tæplega sjö þúsund fleiri en í sama mánuði árið 2011.
Að jafnaði 7,9% aukning milli ára
Aukning ferðamanna nú í mars mældist 26,2% milli ára en á því ellefu ára tímabili sem Ferðamálastofa hefur talið ferðamenn í Leifsstöð hefur aukningin verið að jafnaði 7,9% milli ára í mánuðinum. Ferðamenn í nýliðnum mars voru tæplega helmingi fleiri en í sama mánuði árið 2002, eins og sjá má í töflunni hér til hliðar.
78% ferðamanna af átta þjóðernum
Af einstaka þjóðernum voru flestir ferðamenn í mars frá Bretlandi eða 27,1% af heildarfjölda. Næstfjölmennastir voru Bandaríkjamenn eða 13,4% af heildarfjölda, síðan komu Norðmenn (9,4%), Danir (8,0%), Þjóðverjar (6,0%), Frakkar (5,2%), Svíar (5,0%) og Hollendingar (3,8%). Samtals voru þessar átta þjóðir 77,9% af heildarfjölda ferðamanna í mars.
Bretar báru uppi fjölgun í mars
Ef litið er til einstakra markaðssvæða í mars má sjá verulega aukningu frá Bretlandi milli ára eða um 59,2%. Umtalsverð aukning var frá löndum sem flokkast undir ,,Annað” eða um tæpan þriðjung. Fimmtungsaukning var frá Norðurlöndunum og sama má segja um N-Ameríku. Mið- og S-Evópubúar stóðu hins vegar í stað.
Þróunin frá áramótum
Frá áramótum hafa 87.658 erlendir ferðamenn farið frá landinu sem er um 22 prósenta aukning frá árinu áður. Um 54% aukning hefur verið í brottförum Breta, um fjóðungsaukning (25,3%) í brottförum N-Ameríkana og sama aukning frá löndum sem flokkast undir ,,Annað”. Brottförum Norðurlandabúa hefur fjölgað lítils háttar eða um 6,6%. Mið- og S-Evrópubúum hefur hins vegar fækkað lítils háttar.
Utanferðir Íslendinga
Tæplega fjögur þúsund fleiri Íslendingar fóru utan í mars í ár en í fyrra. Í ár fóru 26.494 Íslendingar utan en 22.641 árið áður. Aukningin nam 17,0% á milli ára. Frá áramótum hafa um 71 þúsund Íslendingar farið utan, 6.103 fleiri en á sama tímabili árið 2011 þegar 65 þúsund Íslendingar fóru utan. Aukningin nam 9,4% milli ára.
Talningar Ferðamálastofu ná yfir allar brottfarir frá landinu um Leifsstöð.
Skiptingu milli landa má sjá í töflunni hér að neðan og nánari upplýsingar undir liðnum Talnaefni/Feðamannatalningar hér á vefnum.
Nánari upplýsingar gefur Oddný Þóra Óladóttir, rannsóknastjóri, oddny@ferdamalastofa.is