Erlendir gestir aldrei verið fleiri í einum mánuði
-11.6% fjölgun ferðamanna á árinu
Nú liggja fyrir tölur úr talningu Ferðamálaráðs Íslands á fjölda erlendra ferðamanna í ágúst. Talningin er gerð við brottför gesta frá Keflavíkurflugvelli. Fjölgun erlendra ferðamanna samkvæmt þessum tölum er rúmlega 8.000 gestir miðað við ágúst 2002, eða 16,2%
Yfir 60.000 gestir í ágúst
Í mánuðinum fóru alls 58.763 erlendir gestir í gegnum Keflavíkurflugvöll en í sama mánuði í fyrra voru þeir 50.537. Auk þessara gesta komu erlendir ferðamenn með Norrænu til Seyðisfjarðar og með millilandaflugi til Egilsstaða, Akureyrar og Reykjavíkur. "Við höfum ekki nákvæmar upplýsingar um skiptingu þessara gesta eftir þjóðerni en meirihluti þeirra er frá meginlandi Evrópu og Norðurlöndunum. Þó liggur fyrir að þar er um aukningu að ræða frá fyrra ári og því ljóst að hér á landi hafa verið yfir 60.000 erlendir gestir í ágúst. Þetta segir okkur að erlendir ferðamenn hafa aldrei verið fleiri í einum mánuði," segir Magnús Oddsson ferðamálastjóri.
Kaupa þjónustu fyrir um 5 milljarða króna
Magnús segir ljóst að fjölgun ferðamanna hafi í för með sér verulega jákvæð áhrif á þjóðarbúið. "Miðað við upplýsingar um meðaleyðslu erlendra gesta má gera ráð fyrir að gestir okkar hafi keypt þjónustu hér á landi fyrir um 5 milljarða í nýliðnum ágústmánuði," segir Magnús.
11,6% fjölgun á árinu
Talning Ferðamálaráðs í Leifsstöð hófst í mars 2002 og er því um samanburðarhæfar tölur að ræða fyrir tímabilið mars-ágúst árin 2002-2003. Ef litið er til þessara sex mánaða ársins þá hafa nú komið 11,6 % fleiri erlendir gestir í ár en á sama tíma í fyrra. Er þá bara horft til þeirra gesta sem fóru um Leifsstöð.
Gestafjöldi frá nokkrum löndum. | |||
Mars - ágúst 2002 og 2003 | |||
(Talning í Leifsstöð) | |||
2002 | 2003 | Breyting | |
Norðurlöndin: | 44.621 | 49.108 | 10,10% |
Bandaríkin: | 28.597 | 27.868 | -2,60% |
Bretland: | 25.956 | 32.355 | 19,80% |
Þýskaland: | 24.571 | 28.167 | 12,80% |
Frakkland: | 14.399 | 16.449 | 12,50% |
Holland: | 6.811 | 7.736 | 12,00% |
Ítalía: | 6.544 | 7.519 | 12,80% |
Spánn: | 3.072 | 4.134 | 25,70% |
Japan: | 2.119 | 2.099 | -1,00% |
Heildarfjöldi: | 183.258 | 204.452 | 11,60% |