Erlendum ferðamönnum fjölgaði um rúm 15% í apríl
Erlendum ferðamönnum hingað til lands fjölgaði um rúm 15% í aprílmánuði síðastliðnum sé miðað við sama tímabil í fyrra. Þetta kemur fram í talningu Ferðamálaráðs á ferðamönnum sem fara um Leifsstöð. Erlendir ferðamenn í apríl nú voru 23.603 á móti 20.465 í fyrra.
Bretar fjölmennastir og fjölgar mest
Sem fyrr voru Bretar fjölmennasti hópurinn sem hingað kom í apríl, 7.030 talsins, og þeim fjölgaði einnig mest nú, eða um tæplega 1.200 manns. Þeir eiga því meira en þriðjung fjölgunarinnar. Sé litið á önnur stærstu markaðssvæði Íslands þá var sem fyrr góð fjölgun Norðurlandabúa og sama má raunar segja um önnur Evrópulönd. Þannig fjölgaði Þjóðverjum um tæp 19%, Ítölum um 55,6%, Spánverjum um 49,2% og Svisslendingum um 29,7%. Hlutfallslega fjölgaði Japönum mest eða um 80%. Hafa ber í huga þegar tölurnar eru skoðaðar að taka mið af þeim fjölda sem stendur á bakvið þær.
Í takt við væntingar
Ársæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálaráðs Íslands, segir tölur aprílmánaðar ágætlega ásættanlegar og í takt við þær væntingar sem menn höfðu. "Bretlandsmarkaður kemur sterkur inn efir smávægilegan samdrátt á milli ára í marsmánuði. Áframhaldandi góð aukning frá Norðurlöndunum sýnir þann góða árangur sem náðst hefur þar og sama má segja um Þýskalandi. Örlítill samdráttur er frá Bandaríkjunum en þaðan erum við engu að síður að fá næstflesta ferðamenn í apríl, 2.761. En mér finnst þessar tölur benda í þá átt að við getum átt gott ferðaár í vændum," segir Ársæll.
Aukningin frá áramótum
Sé litið á fjölgun ferðamanna frá áramótum kemur í ljós að frá ársbyrjun til aprílloka komu tæplega 73.700 erlendir ferðamenn hingað til lands á móti tæplega 64.700 í fyrra. Aukningin nemur 9.000 ferðamönnum eða 14%.
Hér fyrir neðan má sjá töflu með samanburði á fjölda ferðamanna á milli ára.
Fjöldi ferðamanna í apríl* | |||||
Þjóðerni: |
2002 | 2003 | 2004 | Mism. 03-04 |
% |
Bandaríkin | 3.286 | 2.838 | 2.761 | -77 | -2,7% |
Bretland | 5.156 | 5.840 | 7.030 | 1.190 | 20,4% |
Danmörk | 1.159 | 1.664 | 2.363 | 699 | 42,0% |
Finnland | 643 | 702 | 508 | -194 | -27,6% |
Frakkland | 687 | 880 | 929 | 49 | 5,6% |
Holland | 680 | 480 | 566 | 86 | 17,9% |
Ítalía | 96 | 196 | 305 | 109 | 55,6% |
Japan | 178 | 146 | 263 | 117 | 80,1% |
Kanada | 111 | 185 | 121 | -64 | -34,6% |
Noregur | 1.771 | 1.982 | 2.295 | 313 | 15,8% |
Spánn | 145 | 120 | 179 | 59 | 49,2% |
Sviss | 103 | 91 | 118 | 27 | 29,7% |
Svíþjóð | 2.404 | 2.227 | 2.601 | 374 | 16,8% |
Þýskaland | 947 | 1.009 | 1.199 | 190 | 18,8% |
Önnur þjóðerni | 1.674 | 2.105 | 2.365 | 260 | 12,4% |
Samtals | 19.040 | 20.465 | 23.603 | 3.138 | 15,3% |