Eru umræður um loftslagsbreytingar að breyta ferðamynstri fólks?
Ferðamálaráð Evrópu – ETC birti á dögunum niðurstöður afar áhugaverðrar könnunar sem unnin var í samstarfi við rannsókna og markaðsfyrirtækið MMGY TCI Research. Tilgangurinn var að kanna áhrif umræðu um loftslagsbreytingar allt árið 2023 á orðspor evrópskra áfangastaða. Notaðar voru háþróaðar aðferðir til að greina sögur og umræður tengdar ferðamálum á samfélagsmiðlum allt síðasta ár.
Áskoranirnar sem tengjast loftslagsbreytingum, svo sem hitabylgjur, gróðureldar og flóð, hafa í auknum mæli vakið spurningar um möguleg áhrif á ferðahegðun fólks á komandi árum. Má m.a. vísa til þess að í sumarið 2023 mældist mesti meðalhiti í Evrópu frá því að mælingar hófust árið 1940. Meðal þess sem fólk hefur velt fyrir sér, og kanna átti með rannsókninni, er að með tímanum geti umræður um áhrif loftslandsbreytinga og öfgar í veðurfari breytt ferðamynstri fólks á ákveðnum tímum árs, þ.e. mögulega dregið úr aðdráttarafli hlýrri áfangastaða á sumrin en aukið aðdráttarafl svalari svæða.
Getur virkað á orðspor áfangastaða í báðar áttir
Niðurstöður benda til þess að, líkt og í umræðunni almennt, þá gæti verulegrar skautunar, í umræðu um loftslagsbreytingar í tengslum við ferðaþjónustu. Á skömmum geti slíkar umræður auðveldlega haft veruleg áhrif á orðspor áfangastaða, bæði með jákvæðum og neikvæðum hætti. Þ.e. bæði til þess að bæta orðspor þeirra, og þá mögulega eftirspurn, og einnig á hinn veginn.
Þá kom skýrt fram að umræður fólks eru hvað áhrifamestar þegar þær snúast um einhverjar truflanir á á ferðaáætlunum, og sérstaklega áhyggjur varðandi öryggismál.
Umræður tengdar sjálfbærni rjúka upp
Áhugaverður vinkill á rannsókninni tengist einnig sjálfbærni en í ljós kom að umræður um sjálfbærni í tengslum við ferðaþjónustu á netinu hafa rokið upp á undanförnum árum. Hlutfall umsagna á netinu þar sem minnst er á sjálfbærni gististaða og áfangastaða hefur þannig þrefaldast síðan 2022 og fjórfaldast síðan 2018. Þetta undirstrikar að mati ETC hversu mikið ferðamenn eru að knýja áfram „grænu umskiptin“, þar sem þeir leita í auknum mæli að ábyrgri ferðaupplifun.