Fara í efni

Evrópugáttin opnuð í dag

Evrópuvefur
Evrópuvefur

Undanfarin ár hefur verð unnið að þróun sameiginlegrar Evrópugáttar á vefnum til kynningar á Evrópu sem áfangastað ferðafólks. Hin nýja gátt var formlega opnuð í dag. Slóðin er www.visiteurope.com

Aðild að verkefninu eiga hin 34 ríki sem saman mynda Ferðamálaráð Evrópu (ETC) en þar hefur Ísland átt aðild í nærri 40 ár. ETC kynnti fyrir nokkrum árum sameiginlegt vefsvæði fyrir meðlimi sína í Bandaríkjunum. Það var ákveðið tilraunaverkefni, þar sem reynt var að ná til Bandaríkjamanna á þann hátt að markaðssetja eina gátt í stað rúmlega 30. Samdóma álit þeirra sem að þessu stóðu innan ETC var að þetta hefði skilað Evrópu og þar með talið einstökum löndum verulega aukinni athygli.

Fyrst horft til vesturs
Á vegum framkvæmdastjórnar ETC voru síðan teknar upp viðræður við Evrópusambandið um fjárhagslega aðkomu þess að frekari þróun Evrópugáttarinnar til notkunar á öðrum fjarmörkuðum en í Bandaríkjunum. Niðurstaða þeirra viðræðna var að ESB myndi veita fjármunum í þróun umræddrar gáttar en ETC hefur á hinn bóginn séð um faglega þáttinn og tekur nú við vefnum. Til að byrja með er vefnum beint að mörkuðum Norður- og Suður-Ameríku en í framhaldinu verður sjónum einnig beint austur á bóginn, til Rússlands og Asíu.

Frekari þróun framundan
Efni á vefnum er annars vegar sameignleg kynning á Evrópu og hins vegar kynning á hverju landi um sig, með þeim möguleikum sem viðkomandi land hefur að bjóða sem ferðamannastaður. Hefur á síðustu vikum og mánuðum verið unnið að því á vegum Ferðamálastofu að koma efni frá Íslandi inn á vefinn. Evrópugáttin er enn sem komið er fyrst og fremst upplýsingavefur og er t.d. ekki um bókanir að ræða á sjálfum vefum. Hins vegar er vinnu við gáttarina langt í frá lokið og á næstu mánuðum verður unnið að áframhaldandi þróun á virkni og innihaldi.

Á myndinni má sjá upplýsingasíðu um gistingu á Íslandi og og hún birtist gestum á www.visiteurope.com