Farfuglaheimilin í Reykjavík hljóta Kuðunginn
Umhverfisviðurkenning Umhverfisráðuneytisins, Kuðungurinn, var veitt í 16. sinn í gær og kom að þessu sinni í hlut Farfuglaheimilanna í Reykjavík fyrir framlag sitt til umhverfismála á síðastliðnu ári. Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra, afhenti verðlaunin við athöfn í Þjóðmenningarhúsinu í dag og sagði Farfuglaheimilin í Reykjavík vel að verðlaununum komin.
Rekstur í sátt við umhverfið
Farfuglaheimilin í Reykjavík eru tvö, á Vesturgötu og í Laugardal. Farfuglaheimilið á Vesturgötu 17 opnaði á vormánuðum 2009 í glæsilegu húsnæði. Frá opnun hefur verið unnið markvisst að því að takmarka áhrif rekstursins á umhverfið og Farfuglaheimilið hlaut vottun norræna umhverfismerkisins Svansins um ári eftir opnun. Farfuglaheimilið í Laugardal hefur um langa tíð hagað rekstri sínum í sátt við umhverfið og fékk svansvottun árið 2004. Heimilið hefur ávallt lagt áherslu á umhverfisfræðslu og hvatt gesti til að taka þátt í umhverfisstarfi á ferðalögum sínum. Farfuglaheimilin leggja sig einnig fram um að bæta nærumhverfi sitt með að taka þátt í og standa fyrir menningarviðburðum sem glæða samfélagið lífi. Þau eru sem stendur einu umhverfisvottuðu gististaðirnir á höfuðborgarsvæðinu.
Fleiri verðlaun
Þetta eru ekki einu verðlaunin sem heimilin hafa fengið því í lok síðasta árs hlutu heimilin umhverfisverðlaun Ferðamálastofu. Þá hafa Farfuglar verið tilnefndir í samnorrænan hóp tíu fyrirtækja og félagasamtaka til Náttúru- og umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs af Íslands hálfu ásamt Fjallaleiðsögumönnum.
Ferðaþjónustan kraftmikil grein
Farfuglar birtu umhverfisstefnu sína árið 1999 og hafa í mörg ár verið í fararbroddi í umhverfisstarfi í ferðaþjónustu á Íslandi og haft áhrif innan Alþjóðasamtaka Farfugla, Hostelling International. Farfuglaheimilin í Reykjavík eru lykilheimili í hópi 37 farfuglaheimila á Ísland og hafa jákvæð áhrif á umhverfisstarf í fjölbreyttri gistikeðju Farfugla. „Það er skemmtilegt starf og gleðilegt að geta haft áhrif innan jafn kraftmikillar og vaxandi greinar og ferðaþjónustunnar“ segir Sigríður Ólafsdóttir rekstrarstjóri Farfuglaheimilanna í Reykjavík. „Það er krafa ferðamanna að geta valið þjónustu frá fyrirtækjum sem gera betur í umhverfismálum. Um leið og það er rekstrarlega hagkvæmt er það þó fyrst og fremst siðferðislega rétt að vinna í anda sjálfbærni“ segir Sigríður. Verðlaunagripurinn er kuðungur, unnin af listakonunni Ingu Elínu Kristinsdóttur.
Á myndinni hér að ofan má sjá Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra og Sigríður Ólafsdóttir rekstarstjóra Farfuglaheimilanna í Reykjavík og að neðan glaðbeitta stjórn og starfsfólk Farfugla og Farfuglaheimilanna í Reykjavík.