Farfuglar álykta um skattamál
Rekstraraðilar Farfuglaheimilanna á Íslandi, sem funduðu á Dalvík laugardaginn 27. október, senda stjórnvöldum eftirfarandi skilaboð.
Við lýsum djúpum áhyggjum af boðuðum virðisaukaskattshækkunum á gistiþjónustu, sem og stórfelldri hækkun á aðflutningsgjöldum á bílaleigubílum.
Hvort tveggja mun rýra samkeppnishæfni Íslands sem ferðamannalands og draga úr vilja og getu ferðamanna sem hingað koma til að leggja upp í lengri ferðir um landið. Þannig ganga þessar aðgerðir í berhögg við eitt af markmiðum ferðamálaályktunar sem samþykkt var á Alþingi 2011, þar sem segir m.a. “að stuðla beri að betri dreifingu ferðamanna um landið".
Við viljum einnig benda á, að verulegt misræmi er á skattlagningu innan greinarinnar og einnig í samanburði við aðrar gjaldeyrisskapandi greinar í landinu.
Sé það vilji stjórnvalda að auka tekjur af ferðaþjónustu á Íslandi væri nærtækara að einfalda og jafna skattheimtu og ná í skottið á meintum undanskotsmönnum, í stað þess að gera þeim sem standa í skilum lífið þungbært með auknum álögum.
Nánari upplýsingar veitir Markús Einarsson, framkvæmdastjóri Farfugla í síma 861 9434.